140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[07:24]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hitt atriðið sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann út í, og er af nógu að taka úr ræðu hans, var um fyrir fram greiddan skatt af stóriðjunni sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, sem var kannski ekki á endanum svo sniðug aðgerð. Fyrir fram greiddur skattur er ekkert annað en lán sem þarf að borga, það er ekki varanleg aðgerð, það er ekki varanleg tekjuöflun en segir kannski sína sögu um þennan málaflokk, að menn hafi þurft að fara þá leið að fá lán hjá stóriðjufyrirtækjunum sem í fyrsta lagi eru vel varin af vondum samningum af hálfu ríkisins, þ.e. til að breyta skattlagningu eða krefja þau um hærri greiðslur, og í öðru lagi ekki beinlínis að vilja þeirra til að koma að því að greiða meira til samfélagsins á þeim erfiðu tímum sem við höfum verið að glíma við.

Þetta á auðvitað að kenna okkur að gera ekki svona samninga aftur eins og gerðir voru við mörg þessara fyrirtækja á árum áður, ekki öll reyndar en flest þeirra. Sjálfum finnst mér samt sem áður ekki of mikils krafist þó að fyrirtæki af þeirri stærðargráðu, sem hafa skotið rótum hér á landi og velta svona miklum fjármunum og afla svona mikilla tekna, hefðu kannski jafnvel liðkað aðeins til og létt á samningum til að afla ríkinu tekna. En þetta var eina leiðin sem hægt var að ná á þessum tíma þegar þess þurfti. Nú á að reyna að fara aðrar leiðir eins og í gegnum kolefnisskatt, raforkuskatt o.s.frv., reyna að tengja þetta inn í eins konar auðlindanýtingu. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann sé ekki sammála mér um að hægt (Forseti hringir.) sé að krefja þessi fyrirtæki um örlítið meira framlag (Forseti hringir.) til samfélagsins.