140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

staða sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórninni.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vísa þeim fullyrðingum á bug sem fram komu hjá hv. þingmanni að ég hafi verið með það sem hann kallar aðdróttanir eða aðför að hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það er alrangt. Málið snýst fyrst og fremst um óásættanleg vinnubrögð, eins og fram hefur komið í máli mínu opinberlega, við meðferð á fiskveiðistjórnarmálinu sem verið hefur allt of mikill hægagangur í af hálfu sjávarútvegsráðherra og vinnubrögðin voru ekki sem skyldi. Það er það eina sem ég hef gagnrýnt í þessu efni.

Við skulum athuga það að fiskveiðistjórnarmálið er stærsta mál þessarar ríkisstjórnar og mikilvægt að það sé samvinna og samráð milli flokkanna um vinnulag og meðferð í því máli.

Varðandi aðra fyrirspurn hv. þingmanns hef ég að sjálfsögðu ekkert boðvald yfir þingflokki Vinstri grænna. Hvers lags fyrirspurn er þetta nú? Ég botna bara ekki í því af hverju hv. þingmanni dettur það í hug.

Varðandi ráðherraskipan hjá Vinstri grænum er það auðvitað alfarið í þeirra höndum hverja þeir hafa sem ráðherra á hverjum tíma (Gripið fram í.) á sínum vegum.

Varðandi traust á ráðherranum starfar hann auðvitað í umboði stjórnarmeirihluta beggja flokka þó að hann sé ráðherra fyrst og fremst á ábyrgð Vinstri grænna. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli. Spurningin um traust snýr fyrst og fremst að hans eigin flokki. (BJJ: Já.) Og það á ekki að koma neinum á óvart að uppi séu einhverjar vangaveltur núna um að breyta eigi í ríkisstjórn. Gerðar voru breytingar á ríkisstjórninni í september 2010, þá var boðað að á síðari hluta kjörtímabilsins (Gripið fram í.) yrðu aftur gerðar breytingar á verkefnum hugsanlega milli flokkanna eða á ráðuneytunum. Það er fyrst og fremst það sem er uppi núna, (Forseti hringir.) þ.e. að gengið verður frá því að á síðari hluta kjörtímabilsins verða gerðar breytingar á ráðherraskipan flokkanna.