140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:30]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minnist þess ekki að hafa sett tíu fingur upp en ég minnist þess að hafa sagt að ég vonaðist til að þetta mál kæmi ekki hér inn aftur. Í kjölfar síðustu frestunar létum við líka Hagfræðistofnun gera úttekt á þessum fyrirtækjaaðskilnaði og efnahagslegum áhrifum hans. Sú skýrsla liggur núna fyrir. Ég geri ráð fyrir að við fáum tækifæri til að kynna hana í atvinnuveganefnd.

Ef forsvarsmenn fyrirtækis í almannaeigu, eins og Orkuveita Reykjavíkur er, sem hefur gengið í gegnum mjög mikla erfiðleika og hefur líka tekið mjög föstum tökum á rekstri þess mikilvæga fyrirtækis í almannaeigu, koma til mín og óska eftir frestun á þessu ákvæði næstu tvö árin vegna þess að í húfi séu verulegir fjárhagslegir hagsmunir sem snúa að skattamálum og samskiptum við lánardrottna fyrirtækisins út af þeim óróa sem enn ríkir á fjármálamörkuðum á ég sem iðnaðarráðherra mjög erfitt með að verða ekki við því. Við lifum einfaldlega þannig tíma núna að ég get ekki annað en orðið við beiðni fyrirtækis sem er með þessar milljarðaskuldbindingar, það má deila um þær, sem hvíla í raun á herðum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að Alþingi verði að gera það. Hins vegar megum við og eigum auðvitað að kalla fyrirtækið fyrir nefndina og óska eftir því að það fari vandlega yfir rökstuðning sinn, en mér finnst mér ekki stætt á öðru en að verða við þessari ósk að þessu sinni, sérstaklega í ljósi þess að staðan hefur ekki lagast á alþjóðamörkuðum. Fyrirtækið er í mjög viðkvæmum viðræðum við lánardrottna sína.