140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

breytingar á ráðuneytum.

[15:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði ýmsu í ræðu sinni en eiginlega ekki þeirri spurningu sem ég spurði hann. Mér finnst spurning mín hvorki óeðlileg né ómálefnaleg í ljósi þess að fram hafa farið á opinberum vettvangi umræður um hvort efnahags- og viðskiptaráðuneyti verði til áfram, hvort verkefni þess verði færð til annarra ráðuneyta, ekki síst ráðuneytis hæstv. fjármálaráðherra. Það er ekki óeðlilegt, ómálefnalegt eða lítilfjörlegt að þingmenn vilji spyrja annan af oddvitum ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. fjármálaráðherra hvort eitthvað sé til í því eða hvort þetta sé allt saman einhver misskilningur. Ef þetta er allt saman einhver misskilningur þá getur hæstv. fjármálaráðherra væntanlega leiðrétt það með einu til tveimur orðum í ræðustól þingsins, þá þarf ekkert að ræða það frekar. En ég hafna því hins vegar að það sé með einhverjum hætti ómálefnalegt, ódrengilegt (Forseti hringir.) eða óviðeigandi að þingmenn spyrji hvort ætlunin sé að gera slíka grundvallarbreytingu sem snertir framtíð efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.