140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

lög og reglur um erlendar fjárfestingar.

[15:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum mínum. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Þar er ekkert óuppgert. Það er staðreynd að mér hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki sem skyldi leiðbeint kínversku fasteignafyrirtæki sem kennt hefur verið við aðaleigandann Huang Nubo nægilega vel í gegnum frumskóg íslenskra laga og reglugerða svo að hann mætti ná fram markmiðum sínum. Ég hef lagt áherslu á að í innanríkisráðuneytinu tökum við lögum samkvæmt við umsóknum frá þessum aðila sem öðrum um undanþágu frá íslenskum lögum sem kveða á um bann við fasteignasölu og fasteignakaupum til aðila utan evrópska efnahagssvæðisins. Það er okkar hlutverk, ekki samningaviðræður við þá sem hafa áhuga á að fjárfesta hér í ferðamannaiðnaði, hótelrekstri eða öðru slíku.