140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[12:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég sé enga ástæðu til að víkja frá starfsáætlun. Það hefur legið fyrir lengi að 3. umr. fjárlaga yrði daginn í dag og að því hefur verið unnið í fjárlaganefnd. Það er engin ástæða til að bregða út frá því.

Það má nefna að til dæmis árið 2004 voru fjárlög afgreidd frá Alþingi hinn 4. desember. Nokkrum dögum síðar kom hv. þm. Pétur H. Blöndal, þá formaður efnahags- og skattanefndar, og mælti fyrir breytingartillögum og nefndaráliti við 2. umr. um tekjufrumvörpin. (PHB: Það var búið að senda inn álit …) Það er alsiða.

Við afgreiðslu þingskapa var sérstaklega tekið út það ákvæði að efnahags- og viðskiptanefnd ætti að senda fjárlaganefnd umsögn um tekjuhlið fjárlaga, það var meðvituð ákvörðun Alþingis. Þess vegna er eðlilega ekki farið fram á það hér og nú. Hins vegar var sett inn að fjárlaganefnd ætti að veita efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um þingmál er varða tekjuhlið, þ.e. þau þingmál sem eru í efnahags- og viðskiptanefnd, auðvitað ekki um þingmál sem eru hjá fjárlaganefnd sjálfri. Hverjum dettur það í hug? Lesi menn þá bara (Forseti hringir.) greinargerðina með þingskapafrumvarpinu sem varð að lögum í vor. (Gripið fram í.)