140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:57]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ég er komin hingað í ræðustól til að fjalla um fjórar breytingartillögur sem ég lagði fram ásamt hv. þingmönnum Atla Gíslasyni og Þór Saari við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið og nú aftur við 3. umr. Áður en lengra er haldið vil ég ítreka orð hv. þm. Atla Gíslasonar um að markmiðið með þessum breytingartillögum er fyrst og fremst að forgangsraða í þágu velferðar, að forgangsraða í þágu fólksins í landinu, ekki bara þeirra sem lökustu kjörin hafa heldur allra í landinu. Það er einmitt einkenni norræna velferðarkerfisins, frú forseti.

Við atkvæðagreiðslu við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið sendi ég þessar breytingartillögur sem ég ætla að fjalla um til fjárlaganefndar í þeirri von að hinir svokölluðu vinstri flokkar vildu standa með þeim sem lökust hafa kjörin annars vegar og tryggja hins vegar lýðræðislegar kosningar, sem ég geri ráð fyrir að verði á næsta ári.

Nú er komið í ljós að breytingartillögurnar fengu ekki náð fyrir augum meiri hluta fjárlaganefndar og atkvæðagreiðslan á morgun um fjárlagafrumvarpið mun leiða í ljós hvort meiri hluti sé fyrir þessum breytingum.

Tvær af þremur breytingartillögum sem ég stend að ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni fela í sér að bætur atvinnulausra og lífeyrisþega hækka á næsta ári í samræmi við kjarasamninga. Mér finnst mikilvægt að þingið taki ekki þátt í því með ríkisstjórninni að svíkja þá sem lökust hafa kjörin með því að hækka ekki bætur atvinnulausra og lífeyrisþega um 11.000 kr. en í fjárlagafrumvarpinu er aðeins gert ráð fyrir að þær hækki 1. febrúar á næsta ári um 5.500. Með öðrum orðum, þeir sem standa höllustum fæti í samfélaginu eru þarna snuðaðir um 5.500 þrátt fyrir að gefið hafi verið loforð um annað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tengist kjarasamningum frá 5. maí sl. Með leyfi forseta ætla ég að lesa loforð ríkisstjórnarinnar sem hún skrifaði undir í þessari yfirlýsingu:

„Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og samið verður um í kjarasamningum.“

Frú forseti. Það er alveg augljóst af þessum texta í yfirlýsingunni að það verður forsendubrestur í kjarasamningunum ef fjárlagafrumvarpið fer í gegn eins og meiri hlutinn áætlar að minnsta kosti á þessari stundu. Það hefur ekki komið fram nein breytingartillaga í þá veru að standa við þetta loforð í tengslum við kjarasamningana nema frá mér og hv. þingmanni Atla Gíslasyni og síðan frá þingflokki Framsóknar.

Einkenni hins norræna velferðarkerfis er að yfirleitt er farin samningsleið þegar um ágreiningsefni er að ræða eða þegar þarf að taka ákvarðanir um meðal annars hvernig laun í landinu eiga að skiptast milli ólíkra hópa. Í löndum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem er að finna svokölluð frjálshyggjuvelferðarkerfi er lögð áhersla á að fara dómstólaleiðina og því miður er því þannig farið hér á landi að eftir hrun virðumst við líkjast í æ meira mæli þessu frjálshyggjuvelferðarkerfi Bandaríkjanna og er fólki vísað á dómstóla vilji það fá t.d. almennan forsendubrest leiðréttan. Ef um væri að ræða vilja til að koma hér á norrænu velferðarkerfi yrði samið um almenna leiðréttingu lána, sem dæmi.

Enn á ný á að fara gegn megineinkenni norræna velferðarkerfisins og hunsa samning, þ.e. kjarasamning, sem var gerður fyrr á þessu ári. Það er ekki alveg í samræmi við þá nafngift sem núverandi ríkisstjórn gaf sér þegar hún komst til valda á fyrri hluta árs 2009. Hún kallaði sig þá norrænu velferðarstjórnina.

Frú forseti. Við höfum efni á þessari hækkun og höfum reyndar efni á algjörri uppstokkun á öllu bótakerfinu í anda norræna velferðarkerfisins. Þetta er nefnilega bara spurning um forgangsröðun og að ná í skatttekjur ríkissjóðs í séreignarsjóðum. Í því tilfelli þarf að hafa í huga að sjóðir, eins og lífeyrissjóðir, bæði tapast og rýrna en skatttekjur aukast ef vel er hlúð að fólkinu í landinu og þannig komið í veg fyrir að fólk flýi unnvörpum í störf á Norðurlöndunum þar sem bæði hærri laun og meiri velferð er í boði.

Velferðarkerfi eins og það sem við höfum hér á landi byggir fyrst og fremst á ölmusugreiðslum til þeirra sem lökust hafa kjörin og slíkt dregur úr vilja allra til að standa vörð um kerfið, þar á meðal að greiða skatta til kerfisins. Það eru mjög fáir sem fá eitthvað út úr slíku kerfi. Í norræna velferðarkerfinu er reynt að tryggja að allir hafi sama rétt, ekki síst þá til aðstoðar. Síðan er skattkerfið notað til að jafna á milli hópa eða tryggja að ákveðnir hópar fái ekki óeðlilega mikið frá velferðarkerfinu. Til þess að þetta kerfi gangi upp, þ.e. kerfi þar sem bætur eru tiltölulega háar miðað við laun, er mikilvægt að tryggt sé að hver og einn hafi bæði rétt til vinnu og skyldu til vinnu. Það hefur m.a. tekist í Danmörku að byggja upp slíkt kerfi þannig að þetta er ekki nein draumsýn heldur raunverulegt kerfi sem hefur gengið mjög vel í löndunum í kringum okkur og tryggt meiri efnahagslega velferð en annars staðar þar sem ölmusuvelferðarkerfi hefur verið við lýði eins og í Bretlandi.

Frú forseti. Við eigum öll að sameinast um að setja velferð og atvinnu í forgang í stað þess að gera það sem gert hefur verið í of miklum mæli eftir hrun, að forgangsraða í þágu fjármagns eða fjármagnseigenda. Því markmiði getum við náð með því meðal annars að stokka upp velferðarkerfið og hætta að einblína alltaf á þá sem standa verst í samfélaginu og reyna þess í stað að ná samstöðu með því að jafna rétt fólks og nota síðan bara skattkerfið til að afla bæði ríkinu tekna og ná jöfnuði milli fólks.

Kostnaðurinn af þessari hækkun bóta atvinnulausra og lífeyrisþega er ansi hár. Gert ráð fyrir að hækkunin sem er ekki nema 5.500 einu sinni, 1. febrúar 2012, muni kosta 3,7 milljarða. Þetta er há upphæð, en við flutningsmenn gerum ráð fyrir að kostnaðurinn verði fjármagnaður af lið í fjárlögunum sem heitir Ófyrirséð útgjöld og er einmitt ætlaður til að efna kjarasamninga. Ég lít svo á eftir að hafa lesið þessa yfirlýsingu í tengslum við kjarasamningana fyrr á árinu að um sé að ræða loforð sem verði að efna.

Fjármagnið sem er á liðnum Ófyrirséð útgjöld mun ekki duga að öllu leyti til að dekka þennan kostnað og þar af leiðandi leggjum við til, við hv. þm. Atli Gíslason, að það fjármagn sem er í séreignarsparnaðarsjóðum verði skattlagt. Þetta er tillaga sem var flutt af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins við 2. umr. en þar sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ákvað að flytja hana ekki aftur tókum við hana upp og flytjum hana nú við 3. umr. Þetta er ekki ný tillaga, hún hefur áður komið hér fram við gerð fjárlaga og er afar umdeild, m.a. vegna þess að það verður sennilega flókið að innheimta alla þá 86 milljarða sem eiga að innheimtast í ríkissjóð ef höfuðstóll séreignarsparnaðarsjóðanna verður skattlagður.

Skattlagning á höfuðstólnum mun jafnframt þýða að útsvarstekjur sveitarfélaganna aukast. Sveitarfélög munu þá fá um 40 milljarða en mörg þeirra eru mjög illa sett fjárhagslega þannig að þessi tillaga mundi jafnframt laga fjárhag margra sveitarfélaga.

Til að ná sátt um skattlagningu í séreignarsparnaði er mjög mikilvægt að gefið verði út loforð um að skattlagningu við útgreiðslu úr þessum sjóðum verði hætt. Það er því nauðsynlegt að skattleggja ekki bara höfuðstólinn heldur líka inngreiðslur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem mér hefur tekist að toga út úr fjármálaráðuneytinu nema þessar greiðslur í séreignarsjóðina um 30 milljörðum á ári. Tekjuskattur af þeim ætti að vera 12 milljarðar og ríkið ætti að fá um 8 milljarða til viðbótar í skatttekjur þannig að við erum komin upp í 90 milljarða og það þarf ekki að nota nema brotabrot af því til að fjármagna hækkun bóta lífeyrisþega og atvinnulausra um 5.500, en við gerum ráð fyrir að afgangurinn yrði notaður í að greiða niður skuldir og jafnvel notaður á næstu árum til að stokka upp bótakerfið þannig að bætur hér mundu duga til framfærslu en væru ekki ölmusubætur.

Það er mjög mikilvægt að ríkið nýti þær skatttekjur sem liggja núna í séreignarsjóðunum til að greiða niður vaxtakostnað vegna þess að vaxtakostnaður ríkissjóðs er kominn upp í 77 milljarða. Ég hef efasemdir um að þær skatttekjur sem ríkið á í séreignarsparnaðarsjóðunum beri sömu ávöxtun og ríkið þarf að greiða í vaxtakostnað fyrir þau lán sem tekin eru í stað þess að ná í þessar skatttekjur.

Eins og ég minntist á er mjög mikilvægt að eigendur séreignarsparnaðar verði fullvissaðir um að þessi skattur á höfuðstólinn og eingreiðslur leiði ekki til þess að þeir verði tvískattaðir. Því er mikilvægt að tryggja það að loforð og samningar standi eins og lög um ókomna tíð og við hættum að gera það sem virðist vera orðin lenska í dag, að lofa upp í ermina á okkur, skrifa undir alls konar yfirlýsingar og standa ekki við þær, enda er það ekki í anda hins norræna velferðarkerfis.

Þriðja breytingartillagan sem við hv. þm. Atli Gíslason flytjum ásamt hv. þm. Þór Saari felur í sér að framlög skattgreiðenda til núverandi stjórnmálaflokka verði felld niður. Framlagið í fjárlagafrumvarpinu er samtals 295 milljónir og hefur lækkað um 3% frá því í fyrra þegar það var 304 milljónir þannig að stjórnmálaflokkarnir hafa tekið á sig hærri hagræðingarkröfuna, þ.e. þá sem ríkisstjórnin ákvað að allar stofnanir nema velferðarstofnanir og löggæsla í landinu þyrftu að taka á sig.

Ástæðan fyrir þessari breytingartillögu er þríþætt. Í fyrsta lagi viljum við að þingmenn íhugi hvort ekki sé ástæða til að lækka framlagið verulega núna þegar við erum ekki með neitt svigrúm til að hækka bætur sem eru langt undir framfærslukostnaði og þúsundir einstaklinga þurfa á aðstoð frá hjálparsamtökum og sveitarfélögum að halda.

Í öðru lagi finnst okkur ástæða til að breyta lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þannig að allir fái jafnhátt framlag. Þetta er tillaga sem Hreyfingin hefur lagt fram í formi frumvarps hér á þinginu. Markmið með því frumvarpi er að tryggja jafnræði milli flokkanna, sérstaklega þar sem kosningar eru að nálgast.

Samkvæmt ársreikningum flokkanna sem Ríkisendurskoðun birtir samantekt úr á vef sínum voru framlög ríkisins og sveitarfélaga til flokkanna á árinu 2010 eftirfarandi:

Til Sjálfstæðisflokksins runnu 123 milljónir frá ríki og sveitarfélögum.

Til Samfylkingar runnu 133 milljónir.

Til Vinstri grænna 90 milljónir.

Til Borgarahreyfingarinnar 25 milljónir.

Síðan hefur Hreyfingin fengið 4 milljónir.

Þetta er sem sagt allt framlag skattgreiðenda til flokkanna á árinu 2010 og þykir örugglega mörgum þetta vera mjög háar upphæðir.

Okkur finnst mjög mikilvægt að hverfa frá því fyrirkomulagi sem hefur verið hér við lýði að stærri stjórnmálasamtök fái hærri fjárframlög en þau sem eru minni. Það kostar nefnilega jafnmikið fyrir alla flokka að stofna og reka flokk með launaðan framkvæmdastjóra og starfsmann í hálfu starfi í hverju kjördæmi fyrir sig. Okkur finnst það eðlileg umsvif flokks að hafa einn framkvæmdastjóra og starfsmann í hálfu starfi í hverju kjördæmi.

Vilji félagarnir hins vegar hafa öflugra starf er það þeirra að borga félagsgjöld og fjármagna þá meiri umsvif flokksins. Það er svo einkennilegt að eftir að flokkarnir fóru að fá opinber framlög til að fjármagna starfsemi sína og þurftu í minna mæli að leita til atvinnulífsins til að gera það hafa félagsgjöld þeirra hækkað. Það vekur ýmsar spurningar um hvers vegna þörf er á að hækka félagsgjöldin þegar opinber framlög til flokkanna hafa hækkað verulega. Það er mjög einkennilegt að forustufólk þeirra flokka sem hafa hækkað félagsgjöldin skuli telja að heimilin geti tekið á sig meiri útgjöld þegar fram kemur í könnunum að helmingur heimila nái ekki endum saman. Annaðhvort eru flokkarnir veruleikafirrtir eða hafa komist að því að það eru ýmsar leiðir til að ná í fjármagn aðrar en þær að biðla til ríkis eða fyrirtækja.

Þriðja ástæðan fyrir því að við leggjum fram þessa breytingartillögu er að okkur finnst mjög mikilvægt að aðstöðumunur núverandi flokka, sem sagt flokka sem eru komnir inn á þing, og nýrra framboða verði jafnaður, þ.e. honum þurfi að eyða. Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda geta ný framboð sem ná kjöri sótt um 3 millj. kr. framlag vegna kosningabaráttu sem þýðir með öðrum orðum að flest ný framboð þurfa að bjóða fram upp á krít, þ.e. með láni, og vonast síðan til þess að þau nái inn á þing til að fá ríkisframlag upp í kostnað vegna framboðsins. Þessu fylgir auðvitað mikil áhætta. Þetta er ekki nýtt vandamál, margir hafa tekið þessa áhættu, lagt út í mikinn kostnað og síðan ekki náð inn manni og setið þar af leiðandi uppi með miklar skuldir. Þessu þarf að breyta ef við ætlum að tryggja lýðræðislegar kosningar í landinu.

Hreyfingin hefur lagt fram aðra tillögu til að koma til móts við þessa gagnrýni nýrra framboða og hún felst í því að hafi stjórnmálasamtök náð 2,5% atkvæða í kosningum en ekki fengið þingmann kjörinn fái þau úthlutað helmingi þeirrar fjárhæðar sem önnur stjórnmálasamtök fá, sem sagt stjórnmálasamtök sem náðu manni eða þingmönnum inn á Alþingi.

Ég styð þessa tillögu og tel hana geta tryggt að ekki verði hætt við framboð vegna of mikillar kostnaðaráhættu. Ég tel að núverandi ástand bjóði slíkri hættu heim. Það er alveg ljóst að það verða ekki lýðræðislegar kosningar í landinu nema allir stjórnmálaflokkar sitji við sama borð þegar kemur að því að fjármagna kosningabaráttu. Eins og staðan er í dag er alveg ljóst að nýtt framboð hefur ekki sömu möguleika og þeir flokkar sem sitja nú á þingi til að ná til kjósenda. Þetta er vissulega mjög bagalegt þegar spurningin er um að geta farið á milli kjördæma og heimsótt kjósendur. Ný framboð hafa ekki fjármagn til að fara í slíkar ferðir og það er því alveg ljóst að þau sitja ekki við sama borð og flokkarnir sem fá árleg framlög frá ríki og sveitarfélögum til að fjármagna bæði starfsemi flokksins og kosningabaráttuna. Þessu verður einfaldlega að breyta.

Frú forseti. Ég hef farið í gegnum fjórar breytingartillögur sem voru lagðar fram við 2. umr. og svo aftur núna við 3. umr. um fjárlagafrumvarpið. Hv. þm. Atli Gíslason fór í gegnum aðrar breytingartillögur sem ég er meðflutningsmaður að og ég vil bara ítreka enn og aftur það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar og Atli Gíslason sagði í ræðu sinni að markmiðið með öllum þessum breytingartillögum er fyrst og fremst að fá meiri hluta þingsins til að forgangsraða í þágu velferðar og ekki síst norræna velferðarkerfisins. Það hefur því miður ekki verið markmið núverandi stjórnarmeirihluta heldur hefur reynst vera meiri áhersla á að forgangsraða í þágu fjármagnsins eða lífeyrissjóða frekar en fólksins í landinu.