140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það var mjög ánægjulegt að samstaða náðist um að leggja til 30 millj. kr. stofnkostnað til Klausturstofu. Þetta er stórt og mikið verkefni sem sveitarfélögin á öllu Suðurlandsundirlendinu sameinuðust um í 20/20-áætlun sinni þannig að þetta er byggt á mjög faglegum forsendum og mun auk þess koma sér einkar vel í þeirri stöðu sem nú er í sveitarfélögunum í Vestur-Skaftafellssýslu þar sem hefur verið snarpur samdráttur íbúa á síðustu árum, áratugum jafnvel, sérstaklega á síðustu árum. Tekjusamdráttur hefur fylgt því og sveitarfélögin standa höllum fæti, ekki út af skuldsetningu eða mistökum í rekstri heldur einungis út af því að þarna hefur íbúum fækkað mjög. Sveitarfélögin þurfa tækifæri til að snúa vörn í sókn og það gera þau með því að sameinast um öfluga atvinnuuppbyggingu sem byggir á sérkennum og styrkleika svæðanna. Þetta er svo sannarlega eitt af þeim. Þessi tillaga er mikill léttir fyrir fólkið sem þarna býr. Ég fagna því alveg sérstaklega og þakka þeim mörgu þingmönnum úr öllum flokkum sem lögðu liðsinni sitt við þessa tillögu.