140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Um leið og ég fagna því að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, og ég held þingmenn flestir, sé tilbúinn að hefja þetta stóra verkefni á Kirkjubæjarstofu og byggja þar upp vil ég líka minna á að hér erum við að setja 30 milljónir í verkefnið, þetta er hænuskref í risastóru verkefni sem var liður í 20/20-sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar sem fór um allt land, hélt ráðstefnur, dró sveitarstjórnarmenn og áhugamenn saman og sagði: Hér er allt að gerast. Við erum að fara fram með stórkostlegar hugmyndir. Niðurstaðan, 30 milljónir, er hænuskref.

Við skulum fagna því sem lagt er af stað með en það er hálfgert verið að gera gys að fólki sem er búið að leggja ævintýralega vinnu og metnað í að ná samstöðu um mál í heimahéraði. 30 milljónir eru kannski vísir að því sem koma skal en það er milljarður sem (Forseti hringir.) þarf.