140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur ýmislegt verið rætt. Meðal annars var komið inn á að það væri engin stefna í gangi í heilbrigðismálum á Íslandi en margoft hefur verið bent á það úr þessum ræðustól að hér voru sett ný heilbrigðislög 2007 og okkur er sagt að á bak við þau hafi legið mjög mikil og stefnumótandi vinna. Eftir þeim lögum erum við að vinna þar sem lögð er höfuðáhersla á að tryggja öryggi og ákveðna uppbyggingu á heilbrigðisstarfsemi vítt og breitt um landið. Lagður er grunnur að því í þessum lögum og eftir því erum við að vinna, bara svo það sé alveg á hreinu.

Síðan langar mig til að minnast á það af því að við eru að tala um stefnumótun að unnið er að mjög skemmtilegri stefnumótun í ráðuneytinu sem byggð er á skýrslu sem unnin var þar fyrir skömmu. Því miður tókst ekki að koma því í fjárlagafrumvarpið. Unnið er að því að koma á þjónustustýringu þannig að dýrustu leiðirnar séu ekki alltaf valdar. Við vitum að við notum sérfræðilækna meira en góðu hófi gegnir og þurfum að nota heilsugæsluna mun betur. Það er einlægur vilji meiri hluta velferðarnefndar að vinna samkvæmt þessari stefnumótun.

Í tengslum við heilbrigðisstofnanirnar hefur verið sagt að niðurskurðurinn sé algerlega handahófskenndur og annað slíkt, en við verðum að gera okkur grein fyrir því að þar liggur að baki mjög fagleg vinna þar sem farið var yfir öryggisatriði. Öryggið á nú að vera í góðu lagi. Mér finnst mjög eðlilegt að við hugsum þennan pott þannig að okkur tókst að slökkva öll rauðu ljósin og við hljótum þá að fara af stað og reyna að slökkva sem flest gul ljós, eins og það er sett upp í skýrslunni. Það sem við þurfum líka að vinna að og höfum tækifæri til að ræða um síðar er að hægt er að hagræða í heilmikið heilbrigðiskerfinu vítt og breitt um landið (Forseti hringir.) með bættum samgöngum. Við munum ræða samgönguáætlun innan tíðar og verður spennandi að ræða hana í því ljósi.