140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Byggðastofnun.

302. mál
[12:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um Byggðastofnun, ég hef margoft lagt til að hún verði lögð niður vegna þess að ef hún þarf ekki að veita lán sem er ætlast til að tapa á gætu aðrir sinnt því verkefni. Ég ætla hins vegar að tala um umræðuna, frú forseti. Ég kvartaði undan því áðan að fáir nefndarmenn væru mættir og nú er enginn nefndarmaður mættur. Reyndar er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vissulega í atvinnuveganefnd og hann var hér með ræðu en enginn annar úr þeirri hv. nefnd er viðstaddur, frú forseti. Er þetta að verða reglan? Til hvers er umræðan á Alþingi ef ekki til að upplýsa nefndina um vissa hluti þar sem aðrir þingmenn geta komið sínum athugasemdum að? Ég sakna þess að hv. þingmenn Kristján L. Möller, sem er hv. formaður nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem er 1. varaformaður, og Magnús Orri Schram, 2. varaformaður, séu við umræðuna. Þetta er nefndin sem á að taka við málinu og ræða það og ef þau eru ekki viðstödd umræðuna vita þau væntanlega ekkert um hvað er verið að tala. Og þá spyr maður: Til hvers er umræðan yfirleitt?