140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að vera margorður um þetta mál.

Þannig er mál með vexti að það kostar ákveðið að flytja hluti. Ef menn reyna að gleyma því með einhverjum hætti búa þeir til atvinnugreinar sem ekki standast. Þetta var gert í Sovétríkjunum með mjög slæmum afleiðingum.

Það er ekki þar með sagt að það sem við erum að ræða sé alrangt. Skattlagning ríkisins skekkir nefnilega líka. Ef ég ætla t.d. að skúra hjá nágranna mínum og hann hjá mér og við tökum 10 þús. kall hvor fyrir þá kemur ríkið inn í með virðisaukaskatt og alls konar gjöld, tryggingagjald og launaskatta og ég veit ekki hvað. Þess vegna skúrum við ekki hvor hjá öðrum. Ríkið skekkir þjónustu, sem væri hugsanlega fyrir hendi, með sköttum sínum.

Það er mjög athyglisvert að þegar ég flyt vörur til Akureyrar græðir ríkið á því með virðisaukaskatti. Þess vegna má segja að þegar við erum að tala um að þétta landið og minnka kostnaðinn við flutninga erum við í rauninni að taka eingöngu til baka hluta af því sem ríkið hefur aukið við kostnaðinn. Þetta leiðir hugann að því hvort skattlagningin sé ekki komin of langt og hvort ekki þurfi að skoða að hafa fleiri þætti virðisaukaskattsfrjálsa en bara rútuferðir, en mér skilst að langferðabílar séu undanþegnir virðisaukaskatti og er verið að þjappa byggðinni saman með því að láta ekki borga virðisaukaskatt af rútuferð.

Hv. nefnd getur ekki gefið sér góðan tíma, frú forseti, því miður. Hún getur ekki leitað umsagna og hún getur ekki einu sinni fjallað um málið því að enginn hér í salnum er í nefndinni. Eins og ég hef margoft nefnt í umræðunni í dag virðist vera að verða lenska að formenn og varaformenn nefnda telji sig ekki þurfa að sitja við 1. umr. og taka þátt í umræðunni. Það er orðinn mjög skrýtinn andi á Alþingi ef svo er. Hver á þá að flytja boðin til viðkomandi nefnda, í þessu tilfelli atvinnumálanefndar, þegar enginn úr þeirri nefnd situr í þingsal og heyrir það sem ég er að segja t.d. um að skattlagningin dreifi byggðunum frá miðju þegar niðurgreiðslan tekur það aftur á móti til baka? Það getur verið hættulegt að minnka kostnaðinn sem er raunverulega til staðar, en það gæti verið skynsamlegt að taka til baka þá skattlagningu sem býr til fjarlægðirnar. Skattlagning eykur fjarlægð á milli Reykjavíkur og t.d. Ísafjarðar.

Nú veit ég ekki hvort frú forseti getur komið þeim skilaboðum til nefndarinnar að þetta hafi ég rætt hérna — ja, ég veit ekki hvernig á að fara að þessu.