140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Undir lok þingfundar í gær lagði ég fram tillögu til þingsályktunar um að fallið verði frá málshöfðun gegn fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde. Í gærkvöldi fór líka fram fundur formanna þingflokka vegna þessarar boðuðu þingsályktunartillögu og ég verð að segja að skilaboðin af þeim fundi urðu mér mjög mikil vonbrigði vegna þess að það virtist skína í þá fyrirætlun stjórnarflokkanna að koma í veg fyrir að málið fengist yfir höfuð rætt á þinginu.

Ég stend upp til að vekja athygli manna á því að það verður að taka á þessu álitamáli, þeirri breyttu stöðu sem upp er komin í ákærumálinu yfir Geir H. Haarde, og ræða það af fullri alvöru á Alþingi. Það verður að gera strax vegna þess að það er algerlega fráleitt að saksóknari Alþingis sé í þeirri stöðu að málið liggi fyrir á þinginu og fáist ekki rætt eða afgreitt, það eigi bara að bíða og sjá.

Ég vek í þessu sambandi athygli á því að einungis liðu 17 dagar frá því að tillaga um málshöfðun var lögð fram á þinginu í september 2010 þar til málið var að fullu afgreitt á þinginu, 17 dagar. (Gripið fram í: Ekki 17 tímar.) Það sem ég er að kalla eftir er að formenn þingflokka komi sér saman um að setja málið í farveg. Haldi menn að ég sé með einhverja skilyrðislausa kröfu um að málið verði afgreitt með öllu í dag er það misskilningur, en ég trúi því ekki að það sé ætlun stjórnarflokkanna að reyna að halda málinu frá þinginu, koma í veg fyrir lýðræðislega umfjöllun. Nógu mikið blöskrar mér að stjórnarflokkarnir, a.m.k. annar þeirra, banni mönnum yfir höfuð að koma nálægt (Forseti hringir.) meðflutningi á málinu. Það talar fyrir sig sjálft, en að ætla að koma í veg fyrir umræðu um málið stenst enga skoðun og vekur aftur upp (Forseti hringir.) fyrri grunsemdir um að það sé ekkert annað en pólitík sem hafi ráðið för í þessu máli frá upphafi. (ÓÞ: … í þingsal.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal.)