140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska frú forseta og þingheimi gleðilegs árs og þakka fyrir liðið.

Ég held að það sé alveg rétt og hægt að taka undir það að björgunarstarfinu svokallaða sé lokið. Við getum þá farið að tala um stjórnmál án þess að vera með hinar algengu líkingar sem við höfum notað úr brunastarfi eða veðurfari eða sjómennsku á undanförnum árum. Við erum sem sagt ekki stödd í miðju öldurótinu eða í brennandi húsi eða eitthvað slíkt. Svo getum við fagnað því kannski að tíma þessara líkinga sé lokið vegna þess að þær voru margar orðnar ansi leiðigjarnar. En þetta táknar náttúrlega líka það að núna er tími til að meta stöðuna og núna reynir á framtíðarsýnina. Þá vakna stóru spurningarnar.

Maður getur lagt mat á björgunarstarfið svokallaða og séð að ýmislegt er eftir varðandi skuldamál heimilanna. Vandi þeirra sem eru með lánsveð blasir t.d. við og vandi þeirra sem eru með ábyrgðarmenn á lánunum sínum. Það þarf að taka á því, það er augljóst mál.

Ég get líka fagnað ýmsu sem ekki hefur verið gert á þessu björgunartímabili. Ég er t.d. mjög ánægður með að Íslendingar „panikkeruðu“ ekki og afhentu alla virkjanlega orku sem eftir er í landinu til tveggja stóriðjufyrirtækja sem voru ansi háværar kröfur margra í samfélaginu um að við gerðum í miðju björgunarstarfinu. Ég er ánægður með að við gerðum það ekki og að við höfum þetta sem ónýttan möguleika núna. Ég er líka býsna ánægður svona eftir á að hyggja með að við freistuðumst ekki til þess að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði, að við höfum komist í gegnum þetta án þess að umturna því kerfi öllu saman á kostnað kynslóða framtíðarinnar að mörgu leyti.

Nú reynir sem sagt á framtíðarsýnina, nú erum við komin á þann stað. Þá finnst mér vera um það bil fjórir liðir sem ég vil nefna og auglýsa eftir skýrri framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Fyrst eru það peningamálin. Mér finnst erfitt að koma því áleiðis að við þurfum að tala um peningamálin. Kreppan sem reið yfir þjóðina, hrunið, var gjaldeyriskrísa og var að því leyti sérstök hér á landi. Aðrar þjóðir glímdu ekki við fall gjaldmiðils eins og við gerðum. Um þetta er ríkisstjórnin vægast sagt ekki einhuga en hér hangir svo margt á spýtunni; skuldamálin hanga auðvitað á spýtunni.

Hv. þm. Þór Saari fór ágætlega yfir það áðan hvers vegna fólk er óánægt með 110%-leiðina svo að dæmi sé tekið, verðbólgan étur upp allan ávinning jafnóðum. Ég held að það verði ekkert hægt að koma á heilbrigðum lánamarkaði á Íslandi og leysa þetta vandamál til langs tíma, verðtrygginguna og annað, án þess að takast á við gjaldmiðilinn. Við verðum að gera það. Það er orðið gríðarlega aðkallandi að heyra hvaða hugmyndir ríkisstjórnin hefur í þeim efnum og verður mjög aðkallandi í yfirstandandi viðræðum við Evrópusambandið vegna þess að einn kafli í viðræðunum mun fjalla um efnahagsmál og þá reynir náttúrlega á skoðanir hæstv. viðskipta-, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og efnahagsráðherra í þeim efnum. Það verður t.d. athyglisvert að heyra hvort hann tekur undir þá kröfu sem var einu sinni krafa Framsóknarflokksins í þessum efnum um að við tækjum upp gjaldmiðilssamstarf strax í aðildarviðræðunum undir þeim kafla aðildarviðræðnanna, að við mundum sem sagt semja um að Evrópski seðlabankinn mundi styðja við krónuna. (Gripið fram í.)

Svo eru það auðlindamálin. Hæstv. viðskipta-, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og efnahagsráðherra hefur boðað sjávarútvegsfrumvarp. Maður er svolítið ringlaður eða vankaður eftir frumvarp fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem gekk að mörgu leyti gegn mörgu því sem hafði verið lýst yfir að ætti að gera. Þar var yfirgripsmikil pottahugsun og ríkisafskiptahugsun og nú spyr maður sig hvort eigi að fara þá leið aftur. Mér finnst það eitt stærsta og mikilvægasta málið í samtímanum að koma því þannig fyrir — og ég er að því leyti til sammála forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar þegar þeir segja að þetta sé eitt mikilvægasta málið — að við, þjóðin, njótum góðs af auðlindum okkar og þá á ég við orkuauðlindum og sjávarauðlindum. Maður á samt alveg eftir að sjá hver útfærslan verður þannig að óvissan er mikil.

Í lýðræðismálum varðandi stjórnarskrána er líka mikil óvissa og þó að hæstv. forsætisráðherra tali skýrt er eins og aðrir tali gegn henni. (Forseti hringir.)

Ég held að það sé svigrúm til að fara í mjög viðamikla atvinnuuppbyggingu. Ég held að það sé t.d. svigrúm í bankakerfinu að sækja peninga (Forseti hringir.) þangað til þess að koma til móts við heimilin, til að koma til móts við atvinnulífið. Ég mundi vilja heyra meira um hvort það standi til af hálfu ríkisstjórnarinnar.