140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

fyrirkomulag matvælaeftirlits.

[14:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta sem þegar hefur komið fram í svörum við þessari fyrirspurn og hinni næstu á undan, eða þarnæstu, annað en að ég minni menn á að halda til haga, um leið og við tölum núna undir áhrifum af því sem gerst hefur í þessum efnum um nauðsyn þess að bæta regluverkið og styrkja eftirlitið og tryggja að það sjái um sín verkefni með sómasamlegum hætti, að við megum ekki missa sjónar á hinu að við þurfum líka að reyna að ástunda það af hagkvæmni, að það sé ekki meira íþyngjandi og dýrara en þörf er á. Það verður að hafa það í huga líka þegar skipulagið er haft í huga. Í sumum tilvikum kallar svona eftirlit á mælitæki og sérfræðiþekkingu sem kannski er ekki praktískt að dreifa á marga staði í landinu þannig að ýmis sjónarmið vegast á þegar yfir þetta er farið. Í öllu falli viljum við ekki að hlutir af þessu tagi gerist eða endurtaki sig og við skulum vona að það sé ekki meira í pípunum.