140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að þótt þeim starfshópi sem velferðarráðherra mun skipa núna í kjölfar umræðunnar verði bent á mörg álitamál sem við tiltökum að þurfi að skoða séum við ekki að binda hendur þess starfshóps þannig að hann megi ekkert annað skoða.

Ég bendi á að í nefndaráliti okkar tölum við sérstaklega um ættleiðingarferlið og að það þurfi að einfalda. Sem betur fer er sú löggjöf í endurskoðun og sá hópur mun vonandi skila af sér fljótlega.

Spurningin um hvort við séum komin of langt í tæknifrjóvgun eða í því að auðvelda fólki frjóvgun og barneignir held ég að hvert og eitt okkar verði bara að svara því fyrir sig. Ég lít alla vega svo á að við séum komin það langt að ekki sé annað hægt en að skoða þessa viðbót við þá löggjöf í fullri alvöru.