140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar sem að mínu mati var mjög einlægt og hún kom fram með sjónarmið staðgöngumóður sem hún hafði rætt við.

Ég vil aðeins ræða nokkur atriði í máli þingmannsins. Ég get lofað þingmanninum því að öllum vafaatriðum varðandi þetta mál verður ekki útrýmt í umræðunni í dag, enda er ekki til þess ætlast, málið er ekki lagt fram í þeim tilgangi. Það er einmitt verið að leggja til að samþykkt verði að skipa starfshóp sem vonandi fer í, kemst áleiðis og á leiðarenda, að komast að niðurstöðu um mörg af þeim álitamálum sem rædd hafa verið hér í dag.

Aðeins um staðgöngumæðrun og velgjörð. Ég vildi bara hnykkja á einu atriði. Það þarf ekki endilega að vera að staðgöngumóðirin sé skyld viðkomandi, það getur verið um velgjörð að ræða þó um sé að ræða óskyldan og óþekktan einstakling. Það eru dæmi um það. Staðgöngumóðir þarf ekki að vera nákominn ættingi eða vinkona, þó svo að það hafi verið nefnt áðan.

Síðan um öll litlu börnin sem til eru í heiminum sem enginn á, það er sannarlega vandamál. Talað er um að við þyrftum að skoða ættleiðingarlöggjöfina líka en ég bendi á að fyrir þann hóp sem við höfum aðallega rætt um og mundi nota staðgöngumæðrun sem úrræði, eru ættleiðingar ekki möguleiki. Þetta eru oft á tíðum konur sem hafa fengið sjúkdóma og jafnvel þótt við mundum breyta ættleiðingarreglum hér á landi þá meina ættleiðingarreglur í útlöndum (Forseti hringir.) einstaklingum sem hafa fengið sjúkdóma að ættleiða börn. Það leysir því ekki þeirra vanda.