140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í mínum huga snýst þetta um hvort við viljum stíga skrefið áfram eða aftur á bak. Hér er lagt til að undirbúið verði frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég get ekki betur séð en þetta sé eins vandaður farvegur og hugsast getur og ég tel að ef við hefðum samþykkt breytingartillöguna áðan hefðum við stigið skrefið til baka, sem ég held að hefði verið miður.

Ég hef gert upp hug minn. Þetta er ekki auðvelt mál en ég tel að það geti leitt til góðs og skapað fjölda fólks hamingju. Við eigum eftir að kíkja betur á það. Ég segi já við þessari tillögu.