140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er sjálfsagt að reyna að upplýsa hv. þm. Birki Jón Jónsson sem er, eins og kom skýrt fram í máli hans, sérfróður á sviði vörumerkjaréttar (BJJ: Vel inni í málinu.) og er vel inni í málinu og spurði mjög glögglegra spurninga. Ég hygg að ekki sé ástæða til að hafa stórfelldar áhyggjur af því að í þessu máli sé annað á ferðum en það sem boðað er, þ.e. enginn úlfur í sauðargæru eða stórtíðindi eða eitthvað sem menn þurfi stórkostlega að varast. (Gripið fram í.) Þetta mál er held ég einfaldlega um það sem það talar fyrir sig sjálft.

Varðandi þjónustugjaldtökuheimildir og kostnað af rekstri Einkaleyfastofu er þetta ósköp einfalt og er eins og á við í fjölmörgum öðrum tilvikum, ætlunin er að ríkið beri ekki kostnað af þjónustunni sem veitt er. Það er þjónusta að skrá og halda utan um vörumerki og gjaldskráin, eins og almennt gildir um þjónustugjöld, á einfaldlega að endurspegla það. Umfangið ræðst auðvitað af eftirspurninni eftir þjónustunni. Hver umsvifin verða á viðkomandi sviði stýrist í grófum dráttum af því hve mikil þörf verður fyrir viðkomandi þjónustu.

Varðandi 3. gr. er þar, eftir því sem ég best fæ séð, einfaldlega verið að búa betur um og auka andmælarétt þeirra sem skipta við stofnunina, það er í raun og veru verið að styrkja stöðu þeirra. Þeir fá ríkari andmælarétt (Gripið fram í: Er það nóg?) — það er þó að minnsta kosti til bóta, hv. þingmaður — og endurupptökurétt varðandi mál sín, einfaldlega vegna þeirra áhrifa sem ákvarðanir Einkaleyfastofunnar geta falið í sér, til dæmis um synjanir eða niðurfellingar.

Mönnum er líka gefinn kostur á að lagfæra umsókn innan ákveðins tímafrests þannig að ég held að hér sé reynt að búa um þetta með sanngjörnum hætti og réttarstaða þeirra sem eiga samskipti við stofnunina sé tryggð á venjubundinn hátt eins og gert er í svona tilvikum og má vísa til stjórnsýslulaga í þeim efnum, menn eigi andmælarétt, menn eigi rétt á því að lagfæra umsókn eða bæta úr skorti á gögnum og annað í þeim dúr. Sá réttur er hér færður inn í lögin með skýrari hætti. Að hluta til er auðvitað verið að mæta þeim reglum sem Singapúrsamningurinn felur í sér, í öðrum tilvikum samræma framkvæmdina norrænni hefð.

Varðandi tveggja mánaða ákvæðið er það sett til að tryggja að ávallt sé unnt að andmæla í allt að tvo mánuði frá birtingu skráningar og það er til að tryggja stöðu þeirra sem telja sig hafa ríkari rétt og vilja andmæla skráningunni eða fá hana ógilta. Og að bestu manna yfirsýn hefur niðurstaðan orðið sú að hóflegur tími til þess sé tveir mánuðir. Það eru sjónarmið í báðar áttir, tíminn má ekki vera svo skammur að menn geti ekki skoðað stöðu sína en það er heldur ekki æskilegt að hann sé svo langur að ekki fáist á hreint fljótlega hvort skráningunni sé andmælt.

Ég veit ekki hvort ber að skilja hv. þingmann þannig að hann hafi áhuga á því að Alþingi hafi meiri hönd í bagga með ákvörðunum um þessa gjaldtöku. Ég held að Alþingi hafi öðrum og brýnni hnöppum að hneppa en að ákveða nákvæmlega hver þjónustugjöld af þessu tagi eigi að vera. Þau hvíla á skýrum lagagrunni, þau eru þjónustugjöld og ekkert annað, þau eiga að vera í samræmi við kostnaðinn af því að veita þjónustuna. Við þekkjum þetta, þessi umræða hefur oft verið tekin hér í sambærilegum tilvikum og að sjálfsögðu eiga gjöldin að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru.

Varðandi Fjármálaeftirlitið og rekstrarumsvif þess höfum við sjálfsagt tækifæri til að ræða það þegar þau mál eru beinlínis á dagskrá, til dæmis þegar það kemur fyrir Alþingi að ákveða tekjustofna til Fjármálaeftirlitsins, eins og gert er með reglubundnum hætti. Auðvitað hefur það verið talsvert til umfjöllunar hvernig eigi að ganga frá þeim málum og að sjálfsögðu er ekki markmið í sjálfu sér að reka stærra fjármálaeftirlit á Íslandi en þörf er á. Tímabundið eru aðstæður þær að mikið annríki er hjá þeirri stofnun, sem tengist uppbyggingu fjármálakerfisins eftir hrunið, rannsóknum og úrvinnslu mála og jafnvel nýjum verkefnum sem Fjármálaeftirlitinu hafa verið falin eins og að hafa eftirlit með slitastjórnum og fleira mætti telja, en það er talsvert önnur umræða en skráning vörumerkja ef út í það er farið.

Vilji hv. þingmaður fara enn þá lengra og ræða umsvif hins opinbera almennt má auðvitað gera það. Þróunin hefur sannarlega orðið sú að vegna sparnaðar og aðhaldsaðgerða hefur dregið úr umfangi hins opinbera rekstrar, það er nokkuð ljóst. Hann þandist að vísu mjög hratt út á ákveðnu árabili eins og kunnugt er og komu þar ýmsir við sögu.