140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem við reynum að taka mark á eru þær aðstæður sem við búum við á Íslandi í dag. Ég gat til dæmis um það að fjárframlög til vegamála til að viðhalda vegakerfi okkar væru samkvæmt þessari áætlun ekki eins og best yrði á kosið, talsvert minna en það, en við erum að reyna að horfa raunsætt til þeirra fjármuna sem við teljum að við munum hafa til ráðstöfunar. Það er þetta sem við viljum taka mark á og að sjálfsögðu ábendingum og ákvörðun Alþingis.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þeim tveimur leiðum sem hann vísar til, veginum um Fróðárheiði og Öxi, var frestað. Síðan hafa komið til aðrar vegaframkvæmdir eins og að fullgera veginn fyrir Jökul sem léttir á umferðinni um Fróðárheiði þannig að við þurfum að skoða allar þessar framkvæmdir (Forseti hringir.) og öll þessi áform heildstætt.