140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[14:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og vona að það verkefni sem við ræddum, Vaðlaheiðargöngin, þurfi ekki sérstaklega framlög úr ríkissjóði til þess að hægt sé að klára það. Ég vona að það gangi eftir. Ég vil lýsa því að ég tel að jafnvel þó að styðja þurfi verkið með fjármunum sé það þá eitthvað sem við þyrftum að taka til umfjöllunar í því samhengi.

Ég vil nota tækifærið og hvetja til þess að við umfjöllun um áætlunina í þinginu sé mörkuð stefna í veggjaldamálum vegna þess að það er alveg ljóst að við þurfum á frekari framkvæmdum að halda en við höfum ráð á við núverandi aðstæður. Það er eindregin eftirspurn eftir ýmsum úrbótum í þessu efni og ég ítreka að þjóðir bæði austan hafs og vestan nota veggjöld í æ meiri mæli til að fjármagna slíkar framkvæmdir, þarfar fjárfestingar til framtíðar sem þarf að ráðast í nú þegar. Öll tækni í kringum þetta hefur einfaldast mjög og nú eru að verða miklar breytingar. Þegar við gerum áætlun til svona langs tíma tel ég að við eigum að marka stefnuna nú þegar og láta áætlunina hanga saman við það og helst að gera þá ráð fyrir aukinni tekjuöflun í málaflokknum og frekari framkvæmdum en gert er ráð fyrir í þessari fremur rýru áætlun.