140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[10:48]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist eftir þessa ræðu hv. formanns Sjálfstæðisflokksins og þingmannsins Bjarna Benediktssonar. Afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haardes er í skjalinu sem liggur frammi ákaflega illa rökstudd. Það kom skýrt fram í máli hv. þingmanns að ekki stendur steinn yfir steini í rökstuðningi. Hv. þingmaður telur að málið sé ekki úr höndum Alþingis en ég leyfi mér að benda á að helstu lögspekingar landsins sem stuðst er við og vísað er til við lagadeild Háskóla Íslands, Gunnar G. Schram og Ólafur Jóhannesson, hafa báðir bent á í sínum ritum að málið sé úr höndum Alþingis þegar það er komið til saksóknara.

Ég leyfi mér líka að benda á að sjálfur verjandi Geirs H. Haardes, Andri Árnason, hefur skrifað grein í Tímarit lögfræðinga, sem er ritrýnt fræðirit Lögfræðingafélags Íslands, um að Alþingi geti ekki kallað aftur ákæruna á hendur Geir H. Haarde. Ég vil því spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson: Hefur hann ráðfært sig við lögfræðing Geirs H. Haardes í þessu máli? Hvaða álit hefur hann þá á lögfræðingi Geirs H. Haardes ef hann fer ekki eftir áliti hans? Hvaða álit hefur formaður Sjálfstæðisflokksins á Gunnari G. Schram og Ólafi Jóhannessyni sem fræðimönnum í lögum? Samanburður hv. þingmanns við mál níumenninganna var lágkúrulegur. Það virðist skipta einhverju máli hver það er hver það er sem sækir mál ef Alþingi og framkvæmdarvald á að fara að grípa inn í dómsmál. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?

Ég leyfi mér svo að minna hv. þingmann á, af því að hann var að ræða um ábyrgð ríkisins á Icesave-samningunum og hvernig málsmeðferðin á því var, að hv. þingmaður greiddi því atkvæði fyrir örfáum mánuðum að íslenska ríkið bæri ábyrgð á Icesave-samningunum. Hann gerði það sjálfur eftir að hafa greitt atkvæði gegn því í tvígang áður. Þetta mál er alger rökleysa þetta mál og skömm fyrir Alþingi að það skuli vera hér á dagskrá.