140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fjórar spurningar. Varðandi fyrstu spurninguna um hvort málið sé þingtækt er að mínu viti alveg kristaltært að svo er. Um það hafa yfirlögfræðingur Alþingis og forseti lagadeildar Háskóla Íslands ritað, eins og ég nefndi áðan.

Hvort frávísun sé eina leið þingmanna til að hafa áhrif með þessum hætti treysti ég mér ekki alveg til þess að svara því einn, tveir og þrír, en ég gæti alveg trúað því að svo sé. Það réttlætir samt ekki að vísa skuli tillögunni frá.

Hv. þingmaður vitnaði í Ólaf Jóhannesson en komið hefur fram bæði hér og í fjölmiðlum að ýmislegt hefur breyst frá því að Ólafur Jóhannesson og Gunnar G. Schram rituðu pistla sína, m.a. það að lög um meðferð sakamála hafa breyst.

Varðandi þriðju spurninguna um lokaatkvæðagreiðsluna er það rétt hjá hv. þingmanni að það er augljóst hvernig hún fór og hvernig fór fram. Hins vegar hafa ýmsir þingmenn, þar á meðal hæstv. innanríkisráðherra, talið að stöðva hefði átt að atkvæðagreiðsluna eftir að ljóst var hver niðurstaðan yrði. Ég er sammála hæstv. innanríkisráðherra um að þar gerðum við mistök, við áttum að stöðva atkvæðagreiðsluna.

Ég vona að hv. þingmaður muni eftir því líkt og ég að þegar atkvæðagreiðslunni lauk þustu þingmenn út úr þingsal, sumir með kökkinn í hálsinum og aðrir í sjokki yfir niðurstöðunni. Nú koma þessir þingmenn margir hverjir fram og lýsa því hversu brugðið þeim var og hvernig málið breyttist.

Ég talaði ekki um lítilvæg mál, ég sagði veigaminni mál. Þar með er ég ekki að slá það út af borðinu að þau hafi (Forseti hringir.) ekki átt að fá einhverja meðferð, en þau hljóta að eiga að hanga með hinum að einhverju leyti, (Forseti hringir.) það er skoðun mín.