140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt, ég hef alltaf hvatt til þess að öll mál komi til afgreiðslu í þinginu og fái lokaafgreiðslu í atkvæðagreiðslu. Það hefur líka komið fram og er ekki eingöngu persónulegt mat mitt heldur einnig mat lögspekinga og lögfræðings sjálfs verjanda Geirs H. Haardes að þetta mál er ekki þingtækt. (Gripið fram í.) Þó að það sé á dagskrá þingsins er ekki þar með sagt að það sé þingtækt, það er á dagskrá vegna þess að forseti Alþingis ákvað að taka það á dagskrá. Ég hef lýst því yfir áður að ég tel að forseti þingsins fylgi eigin hentistefnu í því hvaða mál eru tekin á dagskrá og hver ekki og hver eru þingtæk og hver ekki. Ég hef fært rök fyrir því. Þetta mál er ekki þingtækt þó að við neyðumst til að ræða það. Það verður hins vegar tekið til afgreiðslu og greidd verða atkvæði um hvort vísa beri því frá. Og það er einfaldlega þingleg meðferð á máli. Ég hvet sem flesta þingmenn til að vísa þessum bölvaða bastarði til föðurhúsanna og vísa því frá þegar þar að kemur.

Hvað varðar skjöl Alþingis og það sem ég sagði um sérgæsku Sjálfstæðisflokksins og hugmyndafræði hans þá er sú hugmyndafræði komin á öskuhaug sögunnar sem samfélagseyðileggjandi fyrirbæri. Með þessari ákæru á ekki að rétta yfir þeirri hugmyndafræði heldur að rétta yfir einum manni, manni sem datt ekki af himnum ofan heldur manni sem hefur verið í Sjálfstæðisflokknum frá unga aldri, er menntaður hagfræðingur, fjármálaráðherra flokksins til margra ára, síðar forsætisráðherra, einn helsti stefnumótandi flokksins á þessu sviði. Það má því segja sem svo að réttarhöldin yfir honum séu einfaldlega dæmi um það hvað gerist þegar menn trúa á blinda hugmyndafræði af slíku offorsi að samfélagið allt líður fyrir (Forseti hringir.) og bíður stórtjón af.