140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar málsmeðferðina geta menn haft mismunandi skoðanir á því til hvaða nefnda eigi að vísa málum, hvort um sé að ræða einhverja sérnefnd, fastanefnd eða hvernig það nú er. Ég get vel skilið að það séu uppi mismunandi og ólík sjónarmið um það. Það má benda á að það má horfa á þetta landsdómsmál sem eina heild og þessi nefnd var sett á laggirnar til þess að vera saksóknara til ráðgjafar, að samskiptin við saksóknara færu þar í gegn, og þá er eðlilegt að þessi nefnd taki við málinu á milli umræðna.

Ég get vel skilið að hv. þm. Mörður Árnason hafi aðra skoðun. Það er honum alveg frítt og það er sjálfsagt mál. Hvort sem þetta mál fer til þessarar nefndar eða ekki, þótt ég sé þeirrar skoðunar að það eigi að fara þangað, breytir það ekki því að það er ástæða fyrir okkur til að klára þetta mál í þinginu, kalla fram vilja þingsins, vegna þess að það er hægt að færa fyrir því rök. Því miður missti hv. þingmaður af röksemdafærslu minni vegna þess að hann var að horfa á sjónvarpið og ég reikna ekki með því að fá að fara aftur yfir ræðu mína, frú forseti. Hvort heldur verður ofan á, að málið verði sent til saksóknarnefndar eða annarrar nefndar þingsins, breytir það ekki því, hv. þingmaður, að málefnaleg niðurstaða á að fást í málinu þannig að vilji þingsins komi skýrt fram.

Ég minni enn og aftur á að margir hv. þingmenn sem áður greiddu atkvæði með því að Geir H. Haarde skyldi ákærður hafa (Forseti hringir.) lýst því opinberlega að þeir hafi skipt um skoðun, breytt afstöðu sinni. Það eitt og sér kallar þetta fram.