140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

ferðamál hreyfihamlaðra.

[14:02]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Það vill svo til að ég hef verið í ágætissamskiptum við þennan einstakling sem þingmaðurinn nefnir til sögunnar og hef mikinn vilja til að koma til móts við þau sjónarmið sem þingmaðurinn fór yfir þannig að þau grundvallarsjónarmið og mín afstaða sem kom fram í svari mínu á sínum tíma eru óbreytt. Hins vegar höfum við skoðað mjög ítarlega bæði laga- og reglugerðarumhverfið og þetta er ögn flóknara en fyrir lá. Ég hef haldið þessum aðila upplýstum um þau vandkvæði sem snúast aðallega um það hversu víð slík leyfi ættu að vera, hvernig stjórnsýslan og utanumhaldið ætti að vera utan um það til þess að tryggja náttúruverndarhagsmunina meðfram þeim rétti hreyfihamlaðra sem er hér til skoðunar.

Ég hef sett í gang samráðshóp milli Umhverfisstofnunar og Öryrkjabandalagsins. Ég hef ekki alveg á takteinum hvenær sá starfshópur á að skila, en ég mun upplýsa þingmanninn um það þegar ég hef orðið mér úti um þær upplýsingar nákvæmlega hversu rúman starfstíma hópurinn fékk. Ég vonast til þess að það geti verið í tæka tíð fyrir næsta sumar, en þessi skoðun er í gangi.

Ég vil nefna af þessu tilefni líka, þó að það komi ekki nákvæmlega þessu við, þ.e. aðgengi hreyfihamlaðra að náttúruverndarsvæðum heldur aðgengi hreyfihamlaðra að opinberum byggingum og byggingum almennt, að í morgun undirritaði ég nýja byggingarreglugerð sem er sett á grundvelli nýrra mannvirkjalaga. Þar eru algjör tímamót að því er varðar það sem kallað er algild hönnun (Forseti hringir.) sem snýst um að tryggja aðgengi fatlaðra að byggingum.