140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

einkavæðing banka og fjármálafyrirtækja.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann talar eins og endurreisn bankakerfisins og kostnaður við hana og þá úrlausn sem þar var sé einkavæðing. Því er ég ósammála, þarna var verið að endurreisa banka sem höfðu áður verið einkavæddir og hv. þingmaður vísaði einmitt í það hvernig það ferli var allt saman. (Gripið fram í: … nýju bönkunum.)

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, fyrrverandi fjármálaráðherra, gaf út ágætisskýrslu um endurreisn bankakerfisins þar sem dregnar eru fram upplýsingar er varða þá endurreisn. Nú má vera að hv. þingmaður sakni einhvers þar og ég heiti því þá að setja mig inn í það mál og athuga hvort ekki sé hægt að koma með upplýsingar um það. En hvað varðar endurreisn bankakerfisins hef ég þá trú að þar sé ekkert sem ekki þoli skoðun og mér finnst sjálfsagt og eðlilegt, ef þar ríkir einhver tortryggni, að það ferli verði allt saman skoðað aftur á bak og áfram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)