140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

einkavæðing banka og fjármálafyrirtækja.

[15:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að upplifa mestu stefnubreytingu hjá þessari ríkisstjórn. Hér kemur hæstv. ráðherra og segist ætla að upplýsa, hann ætlar að upplýsa. (Efnah.- og viðskrh.: Ekki láta líða yfir þig.)

Virðulegi forseti. Nú hefur fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra miklar áhyggjur. Hann hefur meira að segja áhyggjur af að það líði yfir mig (Gripið fram í.) og það er ekkert skrýtið, virðulegi forseti, því að ég er búinn að spyrja hvað eftir annað, skriflega og munnlega. Það er að vísu bara einn aðili hér inni sem vissi ekki af því að hluthafasamkomulagið hefði ekki verið birt og fylgigögn við það, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, en af því að ég er svo glaður yfir því hvað hæstv. fjármálaráðherra segir ætla ég að fyrirgefa það.

Hér erum við að sjá algjörlega nýja tíma. Ég hlakka til [Kliður í þingsal.] að vinna með hæstv. fjármálaráðherra að því að upplýsa það sem allir eru búnir að bíða eftir, sérstaklega varðandi hluthafasamkomulag og fylgigögn hvað það varðar, því að við erum búin að ræða þessi mál í mörg ár án þess að nokkur viti staðreyndir mála. (Forseti hringir.) Nú er breyting og til hamingju, hæstv. fjármálaráðherra. Ég hlakka til að vinna með þér að því að upplýsa þessa hluti.