140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

ríkisfjármögnun Bændasamtakanna.

[15:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nei, það held ég ekki. Fróður maður sagði mér að Bændablaðið væri rekið með hagnaði enda hið besta (Gripið fram í.) blað og (Gripið fram í.) satt best að segja með betri blöðum að mínu mati, stútfullt af fróðleik og upplýsingum og ágætur miðill fyrir þessa grein og væri óskandi að jafnvel fleiri ættu sér slíkan miðil.

Varðandi hefðbundna starfsemi búnaðarsambandanna, búnaðarfélaganna, hefur leiðbeiningarþjónustan og sú starfsemi lengi verið mjög samofin. Að hluta til voru þetta starfsmenn ríkisins áður fyrr, samanber það að ríkið á þarna óuppgerðar lífeyrisskuldbindingar að hluta. Því hefur að sjálfsögðu verið breytt en ríkið leggur til þessarar þjónustu og um það er búið í sérstökum samningi, búnaðarlagasamningi. Það stendur nú svo vel á að hann kemur til endurskoðunar á þessu ári og er sjálfsagt mál að fara yfir þessa þætti. Ég geri ekki lítið úr því þegar gagnrýni af þessum toga er sett fram, þá er rétt og skylt að fara yfir hana og það hef ég einmitt hugsað mér að gera, auk þess sem ég minni náttúrlega á að hinn endi málsins sætir endurskoðun Ríkisendurskoðunar, (Forseti hringir.) þ.e. ráðstöfun hinna opinberu fjármuna sem þarna eru á ferðinni.