140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Hann kom inn á mjög mikilvægt og merkilegt atriði sem mér finnst vera einn af bestu þáttunum í frumvarpinu, það er sú sterka byggðatenging sem þar er, þ.e. gert er ráð fyrir því að þær sjávarbyggðir sem tapað hafa frá sér kvóta fái hann til baka.

Hv. þingmaður nefnir Súðavíkurhrepp. Á töflunni á bls. 9 sést að Súðavíkurhreppur hefur tapað 98,5% af aflaheimildum sínum miðað við hlutdeild í heildarkvóta frá 1991–2010/2011, miðað við hlutfall af heildarafla. Sú tala mundi snúast við og Súðavíkurhreppur fengi 1,11%. Það þýðir að ef mjög fáir íbúar eru eftir í Súðavík fær sveitarfélagið umtalsvert fé á hvern íbúa ef það selur heimildirnar á uppboði. Hins vegar þarf þá að landa aflanum í Súðavík nema gegn 10% aukagjaldi. Það skapar atvinnu í Súðavík og býr til sveitarfélag sem hefur gnægð fjár á milli handanna fyrir íbúana og þá verður eftirsóknarvert að búa þar. Það snýr þá vonandi við þeirri byggðaþróun sem verið hefur undanfarna áratugi þegar menn hafa flutt úr sjávarplássunum og sveitunum á mölina. Þeir munu þá kannski hugsa til þess að flytja til baka, sú þróun væri góð fyrir samfélagið í heild.