140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir margt sem hann kom inn á. Mig langar að staldra aðeins við þær vangaveltur sem voru ræddar áðan og hv. þingmaður tók undir í sambandi við álögur á innanlandsflugið. Því það eru álögur á samgöngur út á landsbyggðina og þegar einstaka stjórnarþingmenn eru farnir að tala um að skattlagning sé orðin óhófleg eða að skattpíning sé svo mikil að menn hafi af því stórar áhyggjur, fer maður að hafa verulegar áhyggjur, og hefur reyndar haft fyrir.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki mikilvægt að nefndin fari sérstaklega yfir það, eins og ég óskaði nú eftir við hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson, með hlutlausum og faglegum hætti hver áhrif þessa á innanlandsflugið séu í raun og veru, og hvort að það sé búið að hækka verðið á flugmiðunum svo mikið að það sé bara á færi einhverra útvaldra að komast þessar leiðir.

Hv. þingmaður kom líka inn á álögur á eldsneyti og þær voru ræddar fyrr í dag undir liðnum störf þingsins. Það er talað um mikilvægi almenningssamgangna, en það er nú oft þannig í hinum dreifðu byggðum að þar er því miður ekki hægt að hafa almenningssamgöngur, að minnsta kosti ekki nema innan stóru þéttbýliskjarnanna. Nú hefur maður fengið upplýsingar um það og fólk sagt manni frá því á fundum að þegar fólk sem býr kannski uppi í sveitunum og sækir vinnu niður í Borgarnes eða á Sauðárkrók eða annað, reiknar út endanlegar ráðstöfunartekjur og tekur tillit til þess að þurfa að keyra í vinnuna, er jafnvel betra fyrir það að vera á atvinnuleysisbótum. Eldsneytishækkanirnar sem hafa orðið eru því ekki beint hvetjandi.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki sé mjög mikilvægt líka að skoða þessa hluti út frá þeim staðreyndum sem blasa við okkur.