140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það skipti miklu máli að þjóðin nýti auðlindir sínar en það skiptir jafnmiklu máli að það sé vel kortlagt hvaða auðlindir eru nýtanlegar og til reiðu og það skiptir máli að fá fyrir þær auðlindir sem best verð eða sem mestar tekjur sem renna þá til velferðar og uppbyggingar atvinnu á landinu öllu. Það skiptir líka máli að fá til baka þann samfélagslega kostnað sem hlýst af því raski sem óneitanlega fylgir virkjunum og öllu því sem í kringum þær eru. Sú hugsun þarf líka að koma inn að við fáum það til baka, ekki bara kostnaðinn, þ.e. veraldlegan kostnað og beinharðan sem við sjáum í yfirlitum frá bönkunum, heldur fáum við líka til baka þann kostnað sem raskið á náttúrunni veldur.