140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:23]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum dóm Hæstaréttar frá í gær um gengislán. Það er ljóst að dómurinn leiðir til bætts réttar fyrir marga skuldara gengislána en dómurinn skilur eftir gríðarlega margar spurningar. Ég gleðst yfir því að fólk fái réttarbót og ég gleðst yfir því að skuldir lækki hjá þeim hluta skuldara sem þetta á allt við en aftur á móti verð ég að segja að ég ber nokkurn kvíðboga fyrir því ástandi sem nú blasir við. Dómurinn leiðir til mikillar óvissu um hvernig fara skuli með gengisbundnar skuldir, ekki bara hjá einstaklingum heldur líka fyrirtækjum. Afleiðingarnar eru alls óþekktar.

Við fengum í gær á fund okkar í efnahags- og viðskiptanefnd fulltrúa fjármálafyrirtækjanna, fulltrúa frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og enginn treysti sér til að skera úr um hversu mikið þetta mundi kosta fjármálakerfið, þ.e. hversu miklir peningar mundu færast frá fjármálakerfinu til skuldaranna. Samt treystu menn sér til að segja að þetta mundi hlaupa á einhverjum tugum milljarða en treystu sér ekki til að skera úr um hversu margir tugir milljarða þetta væru. Það liggja fyrir útreikningar sem voru gerðir á sínum tíma í tengslum við gengislánadóminn hinn fyrsta, getum kallað hann það, og þar var máluð sú mynd að með því að nota samningsvexti gæti þetta kostað fjármálakerfið allt að 200 milljarða. Ef svartsýnustu spár rætast gætu þetta orðið 200 milljarðar en ef þær spár rætast sem menn telja líklegastar verða þetta einhverjir tugir milljarða.

Þetta mun koma sér vel fyrir það fólk sem fellur undir dóminn, getum við sagt, en það fólk greiddi af lánum sínum og hefur í hendi fullnaðarkvittun. Á þessum tíma voru mjög mörg lán fryst, margir voru í vanskilum og annað slíkt og ekki verður annað ráðið af þessum dómi en að hann eigi ekki við um þetta fólk, heldur muni lán þess bera verðtryggða lágmarksvexti Seðlabankans. Það er mikil óvissa uppi og það eru miklar viðsjár fram undan vegna þess að dómurinn mun leiða til þess að ekki verður hægt að púsla saman því bankakerfi sem landið þarf á næstu sex, átta mánuðum þannig að fram undan er mikil óvissa.