140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

hjúkrunarrými og lyfjakostnaður.

[14:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi fjöldann og þegar ég talaði um 500 þá var ég einmitt að tala um Hrafnistu sem er á mörgum stöðum en er eitt félag sem er rekið í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík. Ég er nýbúinn að vera í heimsókn hjá þeim þar sem við ræddum meðal annars þetta atriði. Afstaða mín var afar skýr, að einmitt þar sem fjöldinn er meiri þá jafnast út hvernig fólk kemur á hjúkrunarheimilin og menn eiga að geta mætt ólíkum verkefnum þar inni.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að við höfum verið að skoða viðbrögð við þessu almennt, m.a. í tengslum við lyfjafrumvarpið sem er einmitt núna til meðhöndlunar hjá velferðarnefnd þar sem við höfum verið að reyna að taka inn í það frumvarp S-merktu lyfin á hjúkrunarheimilunum. Vonandi er sú tillaga komin frá velferðarráðuneytinu til nefndarinnar þar sem við reynum að koma til móts við þetta með þeim hætti að jafna aðstöðuna.

Það er auðvitað hugsanlegt að fara út í að kostnaðargreina og vega og meta alla einstaklinga þannig að maður viti nákvæmlega hvað hver og einn kostar. Eftir því hefur verið óskað varðandi þjónustusamningana. (Forseti hringir.) Sú vinna er í gangi í tengslum við yfirfærslu á málefnum aldraðra til sveitarfélaganna og þá verður það auðvitað metið. En á meðan við búum við daggjaldakerfi, þ.e. ákveðið gjald, verða menn auðvitað að taka inn þá einstaklinga sem þurfa pláss á hjúkrunarheimilum og dreifa þeim kostnaði á þá einstaklinga sem þar búa.