140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[19:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að velta aðeins fyrir mér þeirri orðanotkun sem ég tek stundum eftir hjá hv. þingmönnum þegar þeir setja sig nokkuð léttilega í þær stellingar að tala fyrir hönd þjóðarinnar og setja málflutning sinn upp með þeim hætti að þeir séu einhvers konar handhafar þjóðarviljans og þeir sem mæla í mót séu auðvitað ekki fulltrúar kjósenda sinna, (ÞSa: Fulltrúar sérhagsmuna.) heldur fulltrúar sérhagsmuna eins og hv. þm. Þór Saari kallaði hér fram í.

Þetta er merkileg orðræða og ég vil benda þeim hv. þingmönnum sem tala með þessum hætti á að fletta upp í sögubókum og sjá hverjir beittu akkúrat þessum aðferðum í rökræðu um stjórnmál hér á árum áður. Það kynni að vera að hv. þingmönnum, sumum, brygði nokkuð í brún þegar þeir sæju hverjir það voru.

Hvað varðar það mál sem hér er til umræðu er að mjög mörgu að hyggja, við erum auðvitað að ræða form málsins. Ég vil fyrst segja það, frú forseti, að stjórnarskrá er þess eðlis að hún er samfélagssáttmáli sem við höfum komið okkur saman um sem snýr að þeim grundvallargildum, grundvallarreglum sem þurfa að vera í samfélaginu til að við getum lifað saman í sátt og samlyndi.

Þess vegna er orðalagið „orrustan um Ísland“ einkar óviðeigandi þegar um er að ræða stjórnarskrá, af því að það er einmitt þetta grundvallarplagg sem þarf að ríkja mikil og víðtæk sátt á meðal þjóðarinnar um hvað þar stendur til að stjórnarskrá nái tilgangi sínum. Ég er þeirrar skoðunar að sú vinna sem fara á fram til að breyta stjórnarskrá eigi að taka langan tíma, eigi að vera gerð af mikilli yfirvegun og taka eigi lítil skref í hvert sinn, afmarkaða þætti, afmarkaðar greinar sem eftir vandlega yfirlegu eigi síðan að leggja fyrir þjóðina og leita álits hennar á hvort hún sé sammála og hvort víðtækur stuðningur sé við það að breyta stjórnarskrá og þá hverju. Ég tel, frú forseti, og hef alla tíð talið að sú nálgun sem lagt var af stað með við breytingu á stjórnarskránni eins og raun ber vitni hafi verið röng og endurspeglist í flausturslegum vinnubrögðum sem því miður eru til þess fallin að grafa undan þeirri mikilvægu sátt sem þarf að vera um stjórnarskrána.

Það má vel vera að ýmsum hv. þingmönnum hafi til dæmis þótt það fremur léttvægt og kallað það tæknilega niðurstöðu hjá Hæstarétti þegar Hæstiréttur úrskurðaði um kosningu til svokallaðs stjórnlagaþings og gjarnan í umræðu úr þessum ræðustól hef ég heyrt menn gera lítið með þá niðurstöðu og kalla það jafnvel pólitíska niðurstöðu Hæstaréttar. Ég ætla ekki að eyða orðum í hvað mér finnst um slíkan málflutning gagnvart Hæstarétti, en vil þó segja að annaðhvort eru kosningar löglegar eða ekki og ef þær eru ólöglegar er það val sem þannig fer fram ólöglegt. Menn geta svo velt því fyrir sér fram og til baka hvort niðurstaðan hefði orðið önnur í því vali en það sem öllu skiptir er sú niðurstaða Hæstaréttar að ekki var farið að settum reglum. Kosningarnar voru því ógildar.

Það var síðan ákvörðun Alþingis, og getur nú hver maður velt því fyrir sér, frú forseti, hvort virðing þingsins hafi verið höfð þar í fyrirrúmi, að skipa þá einstaklinga sem Hæstiréttur hafði ákveðið með dómi sínum að hefðu verið ólöglega valdir í einhvers konar nefnd sem síðan átti að skila Alþingi tillögum. Gott og vel. Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti réttilega á hér er það fordæmalaust hvernig staðið var að skipun þessarar nefndar og það hlýtur auðvitað að vekja hjá öllum hugsandi mönnum nokkrar áhyggjur að með slíkum hætti hafi verið staðið að vinnu varðandi breytingu á stjórnarskrá.

Frú forseti. Við erum nú komin á þann stað að við erum með þetta mál fyrir framan okkur og það eru nokkur atriði sem ég vil nefna sem snúa að málsmeðferðinni sem ég er að velta fyrir mér. Í fyrsta lagi varðandi stjórnlagaráðið. Nú á það að koma saman til fjögurra daga vinnu til að fara yfir þessar tillögur og senda aftur til þingsins. Í þeirri þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi þann 24. mars árið 2011 um skipun stjórnlagaráðs stendur, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaráð skili tillögum sínum til Alþingis í formi frumvarps til stjórnarskipunarlaga fyrir lok júní 2011. Stjórnlagaráði er heimilt að óska eftir því við forseta Alþingis og forsætisnefnd að starfstími ráðsins verði framlengdur um allt að einn mánuð.“

Gott og vel. Ég skil þetta svo, frú forseti, að þar með hafi starfi þessarar nefndar verið lokið. Nú kann að vera að menn vilji að nefndin taki aftur til starfa, það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt en þá hefði ég talið eðlilegt að þingið skipaði nefndina aftur og það færi fram með formlegum hætti, að tekin yrði ákvörðun með formlegum hætti á Alþingi um að þessi hópur, þeir einstaklingar sem hafa allir lokið sínum störfum, nefndin hafði lokið sínu verkefni, væru kallaðir aftur saman til einhvers konar vinnu. Það hefði mátt gera með skipunarbréfi. En það kann að vera, frú forseti, að ein af þeim ástæðum sem eru fyrir því að slíkt er ekki gert sé að sumir þingmenn fái óbragð í munninn við að þurfa að endurtaka kosninguna frá því í mars 2011 þar sem gengið var með svo freklegum hætti gegn niðurstöðu Hæstaréttar. Það kann að vera.

Að minnsta kosti hefði ég talið að betur færi á því að menn reyndu að undirbyggja allan þennan málatilbúnað af mikilli vandvirkni vegna þess að við erum að fjalla um stjórnarskrána. Þetta er eitt dæmi um þá tegund af málatilbúnaði sem ég tel ekki samboðið Alþingi að bjóða upp á þegar við erum að breyta stjórnarskránni. Það þarf að halda miklu fastar utan um þetta, það þarf að vera miklu meiri formfesta.

Hvað hafa menn hugsað sér að stjórnlagaráðið, svokallaða, sem vitnað er til í því þingskjali sem hér er til umræðu, eigi að lifa lengi? Út þetta ár, út næsta ár, næstu tíu árin, alltaf þegar verið er að ræða um stjórnarskrárbreytingar? Hvaða fyrirkomulag er verið að búa hér til, hvaða fordæmi er verið að búa hér til, frú forseti? Hafa hv. þingmenn sem hafa mælt fyrir þessari málsmeðferð velt því aðeins fyrir sér? Þetta er ekki í síðasta sinn sem stjórnarskránni verður breytt.

Hitt atriðið sem ég vildi vekja athygli á og ég tel að skipti nokkru máli eru tímasetningar og sá tími sem Alþingi hefur til að vinna málið eftir að stjórnlagaráð hefur skilað tillögum sínum og athugasemdum aftur til þingsins. Eins og ég hef skilið það eiga tillögurnar að berast þann 12. mars nk. Þá hefur Alþingi og nefndir þess tíma fram til 29. mars til að vinna sína vinnu. Af hverju 29. mars, af hverju nefni ég þá dagsetningu, frú forseti? Jú, það er vegna þess að í lögum nr. 91/2010 segir svo í 4. gr., með leyfi virðulegs forseta:

„Þjóðaratkvæðagreiðsla skv. 1. mgr. 1. gr. skal fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi.“

Ef kosningin á að fara fram þann 30. júní samhliða kosningu til forseta sjá menn hvaða dagsetningar hér er um að ræða.

Hvert er þá verkefnið á milli 12. mars og 29. mars? Jú, það þarf að móta þingsályktunartillöguna, spurningarnar sem á að spyrja þjóðina, og það sem meira er, það þarf að eiga samráð við landskjörstjórn um þessa þætti. Það þarf að leggja fram þingsályktunartillöguna á þingi, hún þarf að hljóta umræðu. Málið þarf að fara í nefnd, kalla eftir umsögnum, það þarf koma aftur til þings í þingsalinn og ræða þarf málið í annað sinn. Til þessa verks alls höfum við tímann frá 12. mars til 29. mars.

Nú hafa menn velt því fyrir sér, margir hv. þingmenn, að það sé skynsamlegt, auk þess að leggja fram drögin að nýrri stjórnarskrá í heild, að spyrja ýmissa spurninga efnislega sem eiga að geta veitt þinginu einhvers konar leiðsögn við þá vinnu sem tekur við þegar þjóðin hefur gefið álit sitt í þessari ráðgefandi atkvæðagreiðslu. Hvernig skyldu þær spurningar verða ákveðnar, frú forseti? Hvað ætli taki langan tíma að móta þær þannig að vel sé? Hvaða tíma skyldi það taka fyrir fræðimenn að veita umsögn til þingsins um slíkar spurningar þannig að þær hafi eitthvert gildi?

Þetta vefst auðvitað ekki fyrir þeim sem telja að þeir séu sérstakir handhafar þjóðarviljans og að allir sem hafi efasemdir eða athugasemdir um þessi mál séu handbendi sérhagsmuna. Að sjálfsögðu ekki. Ég ætla að nefna dæmi — þó að ég hafi ekki mikla von til þess að þeir hlusti sem eru svo sannfærðir um eigin málstað að þeir telja í öðru hverju orði við hæfi að tala fyrir hönd þjóðarinnar — um hvert vandamálið sem getur verið um það hvernig eigi að spyrja. Hér hefur verið talað um, reyndar hefur það sérstaklega verið sagt að Sjálfstæðisflokknum sé svo ofboðslega illa við öll þessi mál vegna umræðu um auðlindir. Við höfum mismunandi skoðanir á þeim, á slíku ákvæði. Segjum sem svo að spurt verði hvort kjósendur séu þeirrar skoðunar að allar auðlindir eigi að vera í þjóðareign, já eða nei. Segjum að það sé spurningin og segjum að fólk svari þeirri spurningu eins og hún er orðuð. Hvaða leiðsögn skyldi þá vera komin í málið? Við skulum skoða til dæmis auðlind eins og orkuauðlindina, orkuna í iðrum jarðar, hitann, jarðhitann. Nú má ljóst vera að við sem búum í Reykjavík njótum þess mjög umfram marga aðra landsmenn að Hitaveita Reykjavíkur, fyrirtæki Reykvíkinga, hefur aðgang að miklum orkuauðlindum og hefur getað skilað Reykvíkingum ódýru heitu vatni og þar með lækkað húshitunarkostnað þeirra. Á köldum svæðum víðs vegar um landið kostar þetta meira, það er dýrara að hita.

Ef niðurstaðan skyldi verða sú að allar orkuauðlindirnar séu þjóðareign, hvaða leiðsögn munum við lesa úr því? Munum við lesa þá leiðsögn að það sé óheimilt að einstök sveitarfélög eigi orkuauðlindir og íbúar einstakra sveitarfélaga hafi aðgengi og notkunarrétt umfram aðra íbúa landsins? Verður það talið samræmast þessari niðurstöðu að íbúar í litlum hreppi sem búa að stórri og mikilli hitavatnsauðlind njóti þess umfram þá íbúa landsins sem ekki búa við slíkar aðstæður? Með öðrum orðum, verður það réttlætanlegt, í ljósi þess ef niðurstaðan er sú að þjóðin segi að þessi auðlind sé þjóðareign, að gera greinarmun eftir búsetu manna? Eða verður það krafan í kjölfarið að sami húshitunarkostnaður verði alls staðar á landinu af því að við eigum orkuauðlindina, hitaauðlindina öll saman?

Þetta er bara eitt dæmi, frú forseti, um það flækjustig sem við stöndum frammi fyrir í þessu máli. (LGeir: Samfélagseign.) Samfélagseign, kallar hér hv. þm. Lúðvík Geirsson fram í, samfélagseign. Það er akkúrat heila málið, samfélagseign hvers? Er það samfélagseign okkar Reykvíkinga sem á að gilda eða er þetta samfélagseign allrar þjóðarinnar? Og ef svo fer, frú forseti, og hv. þm. Lúðvík Geirsson, að niðurstaðan yrði sú að þjóðin ætti þetta yrði það í hróplegu ósamræmi við það að íbúar einstakra hreppa, sveitarfélaga, eigi slíka eign umfram aðra íbúa landsins.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta, frú forseti, er sú að þetta er eitt af mörgum dæmum um það flækjustig sem við stöndum frammi fyrir þegar við ætlum að orða þessar spurningar. Af hverju nefni ég það? Vegna þess að nú er búið að koma málum svo fyrir að tíminn sem við höfum til að vinna þetta mál er frá 12. mars til 29. mars. Og þegar við sjálfstæðismenn vörum við þessari málsmeðferð og því flaustri öllu sem hefur verið á vinnubrögðum í kringum þetta mál eru það einmitt svona þættir sem við gerum athugasemdir við. Ég læt mér í léttu rúmi liggja yfirlýsingar þeirra sem hafa höndum tekið þjóðarviljann og þjóðarskoðunina og þau einkunnarorð sem slíkir þingmenn gefa okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, ég læt mér það í léttu rúmi liggja, því að þegar farið verður að skoða allan þennan málatilbúnað, þegar ræður þingmanna verða skoðaðar og farið verður í gegnum það hverjir bera ábyrgð á þeim framgangsmáta sem verið hefur í þinginu, óttast ég ekki dóm sögunnar, ekki með nokkrum hætti.

Frú forseti. Mörg önnur atriði má tína til varðandi þessa málsmeðferð. Ég ætla að spara mér það, ég á ekki það mikinn tíma eftir, en ég vil segja þetta: Við skulum hafa það hugfast enn og aftur að stjórnarskráin er samfélagssáttmáli og í orðunum sáttmáli felst leiðsögn um hvernig á að umgangast stjórnarskrána. Slagorð eins og „það stendur yfir stríð um Ísland“ eiga ekki að heyrast í umræðu um stjórnarskrána. Við eigum að komast að niðurstöðu í þessu máli. Allir flokkar hér á þingi hafa ítrekað sagt að það sé vilji til þess að gera ákveðnar breytingar á stjórnarskránni, hafa ítrekað lýst því yfir. Reyndar bendi ég á, frú forseti, að fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni, sumar minni háttar, aðrar mjög viðamiklar. Sú söguskoðun að einstakir stjórnmálaflokkar hafi alla tíð staðið gegn öllum breytingum á stjórnarskránni er því röng með öllu, en breytingar á að gera á grundvelli samfélagssáttmála, ekki stríðsyfirlýsingar. Á það leggjum við sjálfstæðismenn höfuðáherslu í öllum málflutningi okkar.