140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:50]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála því að sú er hér stendur sé að tala fyrir ágreiningi. Ég er bara að leggja mitt kalda mat á málið. Fyrir mér lítur það þannig út að hægt sé að skipta þinginu í stórum dráttum í tvo hópa. Það er sá hópur sem vill breyta stjórnarskránni með ákveðinni aðferðafræði, fá þjóðina þar að og leita sem mest til hennar og gera síðan þær breytingar sem sá hópur telur að þjóðin vilji og sé að leiðbeina um. Svo er það hinn hópurinn sem vill gera litlar breytingar á stjórnarskránni og vill halda þessu hér sem mest í þinginu, leita kannski til sjö til níu manna nefndar og gera þetta með gamla laginu sem hefur sýnt sig að hefur ekkert virkað.

Ég blæs á þau rök sem hafa komið margoft fram að allir eigi að vera svo óskaplega sammála um stjórnarskrána, að ekki sé hægt að breyta henni nema allir séu sammála fyrst. Ég tek sem dæmi málskotsrétt forseta Íslands. Halda menn að við verðum öll einn, tveir og þrír sammála í því máli? Ég held að svolítið langt sé í það.

Það verða alltaf einhver sjónarmið hér í minni hluta. Þess vegna held ég að kominn sé tími til að klára breytingar á stjórnarskrá og leyfa svo þjóðinni að greiða atkvæði um þær, og að ekki eigi að fara jafnstutt og sá sem styst vill fara, af því að þá breytist ekki neitt. Ég hef viljað liðka til og tala frekar fyrir sáttum í málinu en hitt. Ég er ósammála því að ég sé að tala hérna fyrir einhverjum sérstökum ágreiningi.