140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Menn þekkja þann dóm sem Hæstiréttur felldi í svokölluðu gengislánamáli á miðvikudaginn í liðinni viku. Sá dómur hefur líklega skapað meiri óvissu en vissu og munu væntanlega líða margar vikur, sennilega margir mánuðir, þangað til þeirri óvissu verður aflétt.

Stjórnvöld hafa farið út í margvíslegar aðgerðir til að rétta hlut fólks sem hefur tekið lán á undanliðnum árum og þurft að líða fyrir það hrun sem kom í millitíðinni. Þar á meðal hafa margar almennar aðgerðir verið kynntar. Nú er ljóst að menn verða að velta fyrir sér hvort einhverjir hópar verða skildir eftir vegna þessa nýfallna gengisdóms eða hvort menn sitji þar við sama borð.

Óvissan er mikil og henni þarf að aflétta. Það mun hins vegar taka langan tíma. Í millitíðinni verðum við að vita hvort menn sitja við sama borð. Menn hafa horft til þess hvort hin hefðbundnu krónulán þurfi að fá sömu athygli og gengislánin í þessu efni. Ég tel eðlilegt verkefni stjórnvalda og stjórnmálamanna um þessar mundir að skoða það efni. Sá sem hér stendur vill ekki sjá þær afleiðingar að einn hópur verði tekinn umfram aðra í þessu efni, heldur að allir sitji við sama borð. Þessi gengislánadómur má ekki verða til þess að auka ójöfnuð í samfélaginu.