140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

húsnæðismál Náttúrugripasafns Íslands.

[10:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Já, ég held að það sé líka mikilvægt að við ræðum þetta á þeim samráðsfundi sem við höfum óskað eftir með hv. fulltrúum í allsherjar- og menntamálanefnd. Að sjálfsögðu þarf síðan að skoða kostnað við þessa kosti og líka hversu hentugir þeir eru. Ég hef í raun og veru engar upplýsingar um það til að mynda hvort og hvernig megi nýta tankana undir Perlunni. Ég held að það skipti máli, svo dæmi sé tekið, upp á rými og að sjálfsögðu hefur þetta ekkert verið rætt formlega enda er Perlan í ákveðnu ferli.

Ef það skapast opnun held ég að við eigum að skoða þetta. Það er brýnt og við sjáum til að mynda í skólakerfinu að það er mjög mikilvægt að nemendur sem við erum að ala upp, börn og ungmenni sem ganga í skólana okkar, hafi aðgang að náttúruminjum og vísindasafni þannig að ég held að þetta gæti verið mjög spennandi möguleiki. Eins og hv. þingmaður segir verðum við líka að huga að því að það kostar síðan (Forseti hringir.) að byggja upp sýningu þegar húsnæðið er komið þannig að þetta þarf allt að skoða í samhengi.