140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 85/2011 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

539. mál
[12:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Gróflega má segja að efni þessarar tillögu sé hið sama og ég mælti hér fyrir rétt áðan, þ.e. hún fjallar um að leitað er heimildar Alþingis til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara sem settur var við tiltekna ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, og staðfesta hana fyrir Íslands hönd. Þetta er ákvörðun sem auðkennd er með töluheitinu 85/2011. Hún fjallar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál. Sömuleiðis tekur hún til þess að inn í samninginn verði felld tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB. Sú fjallar um úrgang, en jafnframt felur ákvörðunin í sér niðurfellingu tiltekinna fyrri tilskipana sem ekki þóttu nægilega fullkomnar til að tryggja markmið þessarar gerðar.

Með þessari aðlögun, því hér er auðvitað um að ræða aðlögun að Evrópusambandinu í krafti EES-samningsins, má segja að séu innmúraðar reglur til að draga úr óæskilegum áhrifum sem myndun úrgangs hefur sem og meðhöndlun, og vernda þannig sem best heilsu manna og umhverfi. Í slíku máli gildir eins og hv. þingmenn geta vísast tekið undir með Halldóri Laxness, að „alt er betra en að vera passífur“. Tilskipunin kemur svo í stað þriggja eldri tilskipana sem þar með falla úr gildi.

Aðalmarkmið aðildarríkjanna í úrgangsmálum er að sjálfsögðu að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem bæði myndun og meðhöndlun úrgangs hefur á umhverfi og heilsu manna, en jafnframt er sú kvöð á loft reist að tryggja að úrgangur sé meðhöndlaður þannig að ekki skapi háska að neinu kviku.

Meginregluna í þessum efnum nauðaþekkjum við en það er hin svokallaða greiðsluregla. Hún er sú, eins og hv. þingmenn sem hér eru fjölmargir staddir í þessum góða sal kunna upp á sína tíu, að sá borgi sem mengi, eða sá sem hefur með höndum umsvif sem hugsanlega geta haft óæskileg áhrif á umhverfið. Í ljósi þess skal sá sem framleiðir úrgang eða sá sem hefur úrgang með einhverjum hætti í vörslu sinni, standa straum af þeim kostnaði sem kann að falla til vegna meðhöndlunar úrgangsins.

Þessi tilskipun kallar á að aðildarríki ráðist í áætlanagerð um það hvernig þau hyggjast meðhöndla úrgang. Í þeirri áætlun á að koma fram mat á núverandi stöðu slíkra mála á viðkomandi landsvæði. Sömuleiðis á að teikna upp þær leiðir sem veljast til að bæta umhverfisvæna endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, eða förgun úrgangs eftir atvikum. Sömuleiðis á hún að ná yfir mat á því hvernig áætlanir munu styðja við framkvæmd markmiða og ákvæða tilskipunarinnar. Þá er sú kvöð öxluð með málinu að gefa út þessar áætlanir um að draga úr myndun úrgangs.

Nú er það þannig að hluti af ákvæðum þeirrar tilskipunar sem hér er undir hefur þegar verið innleiddur með lagabreytingum á voru landi. En til að ljúka við innleiðinguna og fullkomna aðlögunina þarf að gera breytingar á lögum nr. 55/2003, en þau lög fjalla einmitt um höfuðefni þessa máls, meðhöndlun úrgangs.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur gert þinginu grein fyrir því í þingmálaáætlun að hún stefni að því að fullkomna þessa aðlögun með því að leggja fram lagafrumvarp sem svarar þessum kröfum á því þingi sem nú er háð.

Ég legg til, virðulegi forseti, að nær þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.