140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

málefni innflytjenda.

555. mál
[14:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Auðvitað þurfum við að vinna miklu betur að málefnum innflytjenda og hlúa að þeim sem hverjum öðrum íbúum í landinu. Það hefur verið aukið fjárframlag til sjálfs Fjölmenningarsetursins á undanförnum árum þó að það hafi lent í niðurskurði eins og aðrar stofnanir og er nú með um það bil 27 millj. kr. Meginatriðið og það sem ég undirstrikaði í ræðu minni er að við verðum að læra að líta á innflytjendur eins og hverja aðra íbúa hvers og eins sveitarfélags og að þar af leiðandi hafi hvert einasta sveitarfélag, sama hversu smátt eða stórt það er, þá ábyrgð að hlúa að því fólki sem býr í sveitarfélaginu óháð þjóðerni eða uppruna. Það er eina leiðin til að bæta stöðuna.

Hlutverk ríkisvaldsins verður að samræma og samþætta, safna upplýsingum, miðla þeim, vera með hvatningu, skapa lagaumgjörð o.s.frv. Það getur líka, eins og verið hefur, reynt að stuðla að íslenskukennslu og öðru slíku en fyrst og fremst verða sveitarfélögin að axla ábyrgðina og taka þátt í að búa vel að íbúum sínum.

Ég get líka deilt þeim áhyggjum sem koma fram í andsvarinu af íbúum utan Evrópusvæðisins sem búa að mörgu leyti við önnur kjör. Það er verið að vinna töluverða vinnu í innanríkisráðuneytinu í samráði við velferðarráðuneytið og fara yfir lagarammann, hvernig búa eigi um bæði réttindin almennt og líka málefni hælisleitenda en ekki síður atvinnumálin. Við skulum sjá hvað miðar þar. Það er þó ekkert langt síðan þessi málaflokkur var endurskoðaður, árið 2008 var fjallað um hann í þinginu, en við þurfum líka að upplýsa fólk og vinna skipulega að því að eyða fordómum því að þeir eru (Forseti hringir.) virkilega til staðar á Íslandi, því miður.