140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hugsanleg þátttaka þingmanna í búsáhaldabyltingunni.

[15:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel náttúrlega rétt í fyrstu umferð að lögreglan geri grein fyrir þessu með ítarlegum og tæmandi hætti. Það þarf að fást á hreint hvað er þarna í gangi. Er þarna um einhvers konar rannsókn að ræða eða ekki? Hvað er fólgið í þeirri samantekt á gögnum sem þarna er vitnað til? Auðvitað væri það afar óhefðbundið ef þetta væri einhvers konar skýrslugerð eða rannsókn að út úr þeirri vinnu miðri kæmi sá sem fyrir henni stendur með umfjöllun um hana af þessu tagi. Eða teldu menn það vönduð vinnubrögð áður en gögn og rök liggja þá fyrir í málinu? Það tel ég varla.

Ég útiloka þar af leiðandi ekki að ef til þess þarf að koma að hreinsa svona áburð af þingmönnum að þá sjáum við sjálf um að það verði rannsakað. Það útiloka ég ekki. Ég kæri mig að minnsta kosti ekki um að sitja undir dylgjum af þessu tagi.

Varðandi minn hlut í þessu er hann ósköp einfaldur og ég get afgreitt það mál hér og nú. Ég man til þess að hafa hringt eitt símtal út á Austurvöll í janúar 2009 og það var til þess að athuga hvort (Forseti hringir.) sonur minn, menntaskólaneminn, væri öruggur þar sem hann var þátttakandi í mótmælunum.