140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

áminningar gagnvart opinberum starfsmönnum.

442. mál
[16:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu, ég þakka sérstaklega hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að hefja hana og eins fyrir svör hæstv. ráðherra. Það gleður mig að verið sé að vinna í þessu. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég heyri það en það er gott að Evrópusambandið skuli ekki stöðva þessa framþróun eins og þá sem við ræddum áðan.

Það sem er slæmt í þessum efnum er tvískipting vinnumarkaðarins og hve erfitt er að stjórna opinberum stofnunum vegna ákvæða um áminningu og laga um starfskjör opinberra starfsmanna, hvernig þau skulu framkvæmd. Einkum er athyglisvert að í lögunum stendur að bera þurfi alla samninga undir stéttarfélögin sem hafa þá fengið heilmikið vald í gegnum lagasetninguna.

Ég vildi gjarnan að vinnumarkaðurinn væri þannig að auðvelt væri að bera saman opinbera markaðinn og almenna markaðinn (Forseti hringir.) þannig að lítið sem ekkert skildi þar á milli.