140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

559. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta andsvar. Ég greindi engar sérstakar spurningar í máli hv. þingmanns. Þetta var svona meira að dósera almennt um hlutina, hvernig þeir væru út frá hans sjónarhóli. Ég veit ekki hvort þau sannindi sem þingmaðurinn er að reyna að troða upp á mig er að finna í bókum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, ég hef ekki hugmynd um það. Aftur á móti vil ég segja þingmanninum að það er einfaldlega þannig á Alþingi að þingmenn hafast misjafnt að. Það er hópur þingmanna á Alþingi sem hefur leitast við að rétta hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Spurt var: Af hverju lækka sjálfstæðismenn ekki bara alla skatta? Í þeim efnahagstillögum sem við höfum nýverið lagt fram leggjum við það einmitt til. En eins og ég segi, misjafnt hafast menn að, við höfum einbeitt okkur að því að reyna að búa heimilunum betri hag en hv. þingmaður hefur einbeitt sér að því að fólk slökkvi meira ljósin og heldur örugglega að það auki velferð fólks í landinu. (Gripið fram í.) Ég er ekki sammála hv. þingmanni og vil frekar einbeita mér að því að bæta kjör heimilanna. — Jú, jú, þau mega alveg slökkva ljósin líka en það er ekki aðalatriði í mínum huga.