140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið áhyggjuefni hvernig Evrópusambandið hefur nú ruðst inn á íslenskan völl eina ferðina enn með beinni aðild að deilum og pólitík á Íslandi með opnun áróðursskrifstofu á Íslandi þar sem milljörðum króna er veitt í gegn til þess að blekkja Íslendinga til fylgis við Evrópusambandið. Þetta er ámóta og ef Bretar hefðu opnað skrifstofur í landhelgisdeilunni og farið um landið til að kynna málstað sinn í deilunni við Íslendinga, ámóta og ef Bandaríkjamenn hefðu á tímum kalda stríðsins þegar deilur voru mestar um Keflavíkurflugvöll farið um landið og haldið fundi til að reka áróður fyrir málflutningi sínum og stöðu. Þetta er óþolandi og svívirðileg framkoma hjá Evrópusambandinu gagnvart Íslendingum. Það væri ekkert óeðlilegt að samninganefnd Íslands færi þess vegna um landið og kynnti stöðu mála, stöðu samninga, en að Evrópusambandið ryðjist á þennan hátt inn í sjálfstætt land, lítið land, og buni peningum til allra átta til að vinna málstað fyrir hagsmuni Evrópusambandsins þar sem deilurnar standa innan lands um þetta mál er ekki boðlegt. Það er ástæða til að hvetja til þess að skorin verði upp herör gegn þessu áróðursbragði og afskiptum Evrópusambandsins (Forseti hringir.) af stöðu sjálfstæðs ríkis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)