140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þykir vænt um þá niðurstöðu hv. þm. Birgis Ármannssonar að forseti Alþingis hafi við þessa atkvæðagreiðslu farið rétt að öllu, ekki gert nein mistök. Þá liggur það fyrir. Ég er glaður yfir því og það er forseti Alþingis örugglega sjálf líka.

Þá kemur athugasemd. Hún er sú að við þessa atkvæðagreiðslu þar sem ég og hv. þingmaður sátum báðir í salnum og allir sem hér eru, hygg ég, að þeim tveimur undanskildum sem komu inn á þing síðar, gerði enginn athugasemd eða hreyfði mótmælum eftir að þessum fjórum atkvæðagreiðslum var lokið og kom að hinni fimmtu um summa summarum. Ekki Birgir Ármannsson, ekki Bjarni Benediktsson og ekki ég, þó að ég væri þarna í fyrsta sinn og hefði kannski haft ástæðu til að spyrja betur út í þessa atkvæðagreiðslu því að það er auðvitað rétt hjá Birgi Ármannssyni að það hefði kannski þurft að rökstyðja hana betur og fara betur í málið.

Þá er að hugsa um hvernig það hefði átt að gerast og mér heyrðist hv. þingmaður vera á því að það hefði kannski átt að greiða atkvæði um þá alla í einu, þá ráðherra sem hér voru undir í atkvæðagreiðslunni. Ég spyr: Er það rétt, er það þannig að Alþingi hefði kannski átt að ákæra þá alla í einu? Og þá spyr ég: Alla fyrir sömu sakir? Af því að ég er ekki hagvanur í réttarsölum, er það algengt á Íslandi að sakborningar séu teknir svona í kippu og allir ákærðir fyrir það sama og dómarar kveði upp einn dóm yfir þeim öllum? Þetta væri gott að fá að vita frá manni sem hefur að baki langa skólagöngu í hinni virtu lögfræðideild hins háttvirta Háskóla Íslands.