140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar hvað varðaði frumkvæðisréttinn taldi ég mig hafa útskýrt það býsna vel. Frumkvæðisrétturinn felst í því að einhver hafi heimild eða rétt til þess að gera einhverjar þær ráðstafanir sem leiða til bindandi ákvörðunar. Dæmi um það er að karl og kona geta átt frumkvæði að því að ganga í hjúskap, foreldrar þeirra geta til dæmis ekki haft frumkvæði í því efni. Þetta er frumkvæðisréttur. Um þetta snýst málið svolítið og ræða mín fyrr. Allir þeir fræðimenn sem að þessu komu hafa alltaf sagt að málið væri úr höndum þingsins, þ.e. þingið hefur ekki, eftir samþykkt og eftir að málið er komið fyrir dóminn, heimild til að afturkalla það. Það hefur ekki frumkvæði til þess að gera það. Svo einfalt er það. Og þetta er ekkert nýtt hugtak í lögfræði eða ankannalegt.

Allir fræðimenn eru sammála um þetta nema þeir sem hafa síðan skrifað blaðagreinar, og með fullri virðingu fyrir öllum þeim góðu lögfræðingum er það þannig að menn komast upp með að skrifa í blaðagreinum ýmsa hluti, eins og „að því er best verður komist“ eða eitthvað svona, án þess að færa fyrir því rök og án þess að aðrir sérfræðingar líti yfir öxlina á þeim og kíki aðeins á hvort það sé skynsamlegt sem þeir eru að skrifa. Það er meira að segja staðfest í úrskurði landsdóms að það er þannig, þar er til dæmis talað um að saksóknari Alþingis eigi að beina einhverju til Alþingis ef hann telur ástæðu til. Að fenginni þeirri ósk skapast þessi réttur Alþingis til að taka á málinu í samræmi við þær gömlu lagatúlkanir sem ég fór fyrr yfir.

Af því að ég hef aðeins tækifæri í málinu verð ég að segja sem er að menn tala hér mikið um að 63 þingmenn hafi ákæruvaldið. Það er ekki rétt, þeir eru að ég held núna orðnir 65. Ég hef ekki verið spurður um hvort ég telji að það eigi að ákæra Geir Hilmar Haarde eða einhverja aðra (Forseti hringir.) og Lúðvík Geirsson ekki heldur. Við erum 65.