140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði. Í fyrsta lagi var þetta spurning um málefnalegar ástæður. Hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur meðal annars talið það til að menn hafi skipt um skoðun. Nú hafa þingmenn í báðum þeim hópum sem hér takast á sakað hver annan um að vera afskaplega ómálefnalegir í þeirri afstöðu sem þeir tóku þegar ákæran var upphaflega gefin út. Nú lítur út fyrir að þeir sem áður voru ómálefnalegir og hafa nú skipt um skoðun séu allt í einu orðnir málefnalegir og þar af leiðandi eigi að taka mark á skoðunum þeirra. Ég held að það sé varhugavert að gera ráð fyrir því að þó að maður skipti um skoðun sé það endilega málefnalegt. Það getur verið af ýmsum ástæðum, getur verið vegna áeggjanar vina og félaga, getur verið vegna samviskubits, vorkunnsemi og guð má vita af hvaða öðrum ástæðum. Það þarf ekki að vera neitt málefnalegt við það að menn skipti um skoðun.

Svo aðeins um það að vel hafi tekist til við að setja hér neyðarlög og að aðrar þjóðir hefðu átt að fylgja því fordæmi. Ég er sammála því að það hafi líklega verið ráðstöfun til góðs. Það er samt ekki málefnaleg ástæða, það er ástæða sem í lögfræði er kölluð að gæti réttlætt einhvers konar refsilækkun og það ætti að taka tillit til þess við ákvörðun refsingar en það breytir ekki refsinæmi þess brots sem fyrst var framið. Þetta getur haft áhrif á mat refsingar en hefur ekkert að gera með hið upphaflega brot.

Að lokum, frú forseti, aðeins um það hvort menn séu að skipta sér af málefnum dómstóla. Við því eru tvö svör. Annars vegar er: Já, það er verið að skipta sér af athöfnum dómstóla ef Alþingi fer inn í málið á röngum forsendum. Hins vegar: Ef það gerir það á réttum forsendum, þ.e. að einhverjar málefnalegar breytingar hafi komið til sem saksóknari hefur látið vita af, er ekki verið að fara inn í afskipti af dómstólum með neinum röngum hætti.