140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Fyrst, frú forseti, hvað það varðar að breyta um afstöðu. Ég held að það hafi verið hagfræðingurinn John Maynard Keynes sem sagði: Ef staðreyndirnar breytast breyti ég um skoðun, en þér, herra minn, hvað með yður? Þetta sagði þessi frægi hagfræðingur af því að hann stóð frammi fyrir því að skoðun sem hann hafði haft reyndist að hans mati röng og þess vegna skipti hann um skoðun og byggði það auðvitað á rökum.

Hið sama gildir um þetta mál. Þeir þingmenn sem hafa komið fram og sagst hafa skipt um skoðun í þessu veigamikla máli hafa ekki gert það af neinni léttúð. Ég er alveg sannfærður um það, frú forseti. Þeir hv. þingmenn sem það hafa gert hafa gert sér fyllilega grein fyrir því að með því væru þeir að lýsa því yfir að þeim hefði orðið á í messunni þegar þeir tóku þá afdrifaríku ákvörðun að styðja þann málatilbúnað að Geir H. Haarde yrði stefnt fyrir landsdóm. Ég ráðlegg hv. þingmanni að gera ekki lítið úr slíku, menn gera ekki slíkt nema að vel athuguðu máli.

Hvað varðar Icesave-málið enn og aftur er það einmitt þannig að það sem menn velta fyrir sér eru ekki bara breyttar staðreyndir í málinu heldur líka hvernig skoðanir manna á staðreyndum hafa breyst. Með því að því hefur verið lýst yfir svo afgerandi af hálfu íslenskra stjórnvalda að engin lagaábyrgð hvíli þar á hljóta menn að velta fyrir sér hversu undarlegt það er að sækja Geir H. Haarde með lögum vegna einhvers sem íslenska ríkið bar ekki ábyrgð á.

Hvað varðar svo afskipti af dómstólnum, um það snýst þessi deila hér á Alþingi, hvort það séu lögmætar ástæður til þess fyrir Alþingi að breyta um skoðun. (Forseti hringir.) Það er þá niðurstaða Alþingis. Ef niðurstaðan er sú að það eigi ekki að gerast vegna þess að það séu ekki lögmætar ástæður kemur það fram í atkvæðagreiðslunni en til þess þarf, frú forseti, atkvæðagreiðslan að fara fram.