140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:10]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði í einhverju ómerkilegasta máli sem komið hefur á dagskrá Alþingis á lýðveldistímanum, hvort alþingismenn eigi að grípa inn í dómsmál vegna ráðherraábyrgðar. Mál þetta segir meira en nokkuð annað um þá fyrirlitningu sem stuðningsmenn þess hafa á réttarríkinu og mér er til efs að slík tillaga fengist rædd í nokkru öðru þjóðþingi sem kennir sig við lýðræði og aðhyllist hugmyndina um réttarríki. Þetta mál hefur þó það til síns ágætis að það hefur dregið fram allt sem er að í íslenskum stjórnmálum. Vonandi gleyma kjósendur því ekki.

Frú forseti. Sumir halda því fram að hrunið verði ekki gert upp með því einu að láta fyrrverandi forsætisráðherra sæta ábyrgð fyrir landsdómi. Það er alveg rétt. En hrunið verður heldur ekki gert upp án þess. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)