140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Auk þess sem ég vísa til þess sem fram hefur komið, um að þingið hefur áður tekið afstöðu til þessarar spurningar og þar áður til þess hvort málið væri þingtækt, finnst mér ástæða til að vekja athygli á því að sitthvað er ákæruvald og dómstóll. Til þess að dómstóll fjalli um mál þarf ákæruvaldið fyrst að komast að niðurstöðu um það að sakborningur sé með yfirgnæfandi líkum sekur. Þeir sem eru í þessum sal fara með ákæruvaldið og það er sú spurning sem menn þurfa að gera upp við sig áður en málið fer til landsdóms til endanlegrar afgreiðslu. Þess vegna er það með engum hætti inngrip í störf dómstóla þegar ákæruvaldið fjallar um þá grundvallarskyldu sína að gefa ekki út ákæru og fylgja ekki málshöfðuninni eftir nema meiri hluti þeirra sem hér eru inni sé þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að hinn ákærði sé sekur. Eins og menn hafa séð í umræðunni eru allar líkur til þess að meiri hlutinn sé þeirrar skoðunar að hann sé saklaus af því sem ákært hefur verið fyrir. Um það verður að greiða atkvæði, það gerist ekki nema þessi tillaga verði felld.